140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

úttekt á aðgengi sjómanna að þjónustustarfsemi opinberra aðila.

90. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Þegar svo er komið að sjómenn eru eina stéttin á Íslandi sem er skilin út undan í skattfríðindum vegna vinnu fjarri heimilis er komið í óefni. Auðvitað vitum við öll að ef einhver stétt í okkar landi ætti að hafa fríðindi af vinnu fjarri heimili þá eru það sjómenn. Nei, eitt af afrekum núverandi ríkisstjórnar var að fella niður sjómannaafsláttinn, sem var þó ekki til að státa af. Hann gat í hámarki nálgast 400 þús. kr. á ári eða um það bil þúsund krónur á dag fyrir þá sem stunduðu sjómennsku allt árið.

Nú er það svo að þessar tölur eru margfalt, margfalt lægri en gengur og gerist í öllum ríkjum Evrópu þaðan sem fiskveiðar eru stundaðar. Þó ekki væri nema þess vegna er ástæða til að taka til hendinni. Miðað hefur verið við það að ákveðin prósentutala af tekjum væri unnin á sjó til þess að nýta mætti sjómannaafsláttinn og jafnframt að menn væru skráðir á skip og þar er allt mjög gegnsætt.

Þegar það er komið upp að ríkisstjórn Íslands leyfir sér að lemja þannig á sjómönnum veltir maður því upp hvort ekki sé ástæða til að skoða aðgengi sjómanna að ýmsum þáttum samfélagsins, ýmsum þáttum í þjónustustarfsemi hins opinbera, almennu menningar- og tómstundalífi, heilbrigðiskerfi, skólakerfi og öðrum þáttum sem þykja sjálfsagðir fyrir okkur landkrabbana.

Nei, við skulum bara henda þeim út á haf sem leggja stærstan hluta í sameiginlegan sjóð landsmanna til að velferðarkerfi okkar geti blómstrað. Það er engin tilviljun að okkar kerfi er sterkt í þeim efnum þar sem 65% af þjóðartekjunum koma frá sjávarútvegi sem hefur haldið stöðunni ótrúlega vel þrátt fyrir ýmsar ágjafir.

Þess vegna er þessi tillaga sett fram. Gerum nú gangskör að því að skoða ofan í kjölinn hvar aðgengið er, hvar möguleikarnir eru og auðvitað mun koma í ljós að sjómenn sitja langt frá því við sama borð og aðrir landsmenn, langt frá því. Það ætti kannski líka að opna augu ráðamanna fyrir því að ástæða er til að veita sjómönnum umbun eða verðlauna þá með einhvers konar skattfríðindum eins og allir landsmenn hafa í öllum ráðuneytum, í öllum skrifstofum í landinu öllu, í öllum fyrirtækjum fá starfsmenn fríðindi, ýmist í dagpeningagreiðslum eða öðrum þáttum, sem virka inn á tekjuskattsskyldu. En ekki sjómenn, ekki lengur. Þeir eru ljóti andarunginn í samfélaginu og mega éta það sem úti frýs.

Vonandi gengur þessi tillaga eftir og vonandi skoða menn þetta vel og vandlega. Annað eins hefur nú verið rannsakað í okkar þjóðfélagi, smátt og stórt.

Það sem er erfitt í þessu máli er eitt sem íslensk þjóð er mjög viðkvæm fyrir og ráðamenn eru viðkvæmari en aðrir, það er að það fylgir sjómannastéttinni slorlykt. Slorlykt hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá okkar göfugu þjóð þó að við lifum á slorinu. Horft er fram hjá því og æðioft tuðað yfir sjómönnum sem mönnum með sérkröfur. Þetta eru slík öfugmæli að ótrúlegt er að svona grandvör og góð þjóð eins og Íslendingar skuli hankast á þessa króka og láta blekkjast í einhverjum orðaleik fína fólksins í landinu.

Þessi tillaga miðar að því að skoða hvaða skerðingu sjómenn búa við miðað við aðra landsmenn, skerðingu á gæðum sem þeir verða fyrir vegna einangrunar frá lífinu í landi.