140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

samanburðarrannsókn á túlkun reglna EES-samningsins.

94. mál
[18:00]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það þannig að Norðmenn hafa á margan hátt gert þetta mun betur en við Íslendingar. Þeir hafa einmitt gert úttektir á áhrifum EES-samningsins og mig langaði að segja að í grunninn held ég að það sé góð hugmynd að við gerum úttekt á áhrifum EES og því hvernig EES-reglur hafa verið teknar hér upp. Ég held að það megi til sanns vegar færa, að minnsta kosti á tilteknum málasviðum, að við höfum einmitt verið kaþólskari en páfinn, ekki nýtt okkur alls kyns rými til aðlögunar og rýmri túlkunar okkur í hag. Þetta er í grunninn málefni sem mjög vert er að skoða og þar getum við meðal annars litið til Norðmanna um hvernig eigi að gera það.

Mig langaði að spyrja hv. þm. Árna Johnsen hvort hann sæi nokkuð til fyrirstöðu — í tillögunni er gert ráð fyrir að þetta varði einungis þætti er snerta viðskipti, samkeppni og styrkjakerfi í iðnaði, landbúnaði og öðrum atvinnugreinum. Ég mundi í rauninni telja að þetta ætti að vera víðar og nefni þar aftur fordæmi Norðmanna. Þetta er löng markmiðsgrein og hér er talað um eitthvað sem íþyngi eða hafi íþyngt einkaaðilum. Nú er það þannig að það er ýmislegt sem hér hefur verið innleitt sem hefur til dæmis komið mjög harkalega niður á opinberri þjónustu og því sem hægt er að skilgreina sem samfélagsþjónustu og það væri jafnvert að skoða.

Í grunninn held ég að það sé jákvætt skref, ef vel er að því staðið og tekið til fyrirmyndar það sem annars staðar hefur verið gert vel, að skoða hvernig við höfum innleitt þessar gerðir og hvernig við hefðum getað nýtt (Forseti hringir.) færin betur; og getum gert til framtíðar því að það hlýtur nú að vera lykillinn að þessu að við ætlum að læra af þessu til að gera betur í framtíðinni.