140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

barátta gegn einelti.

[13:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Dagurinn í dag er helgaður baráttunni gegn einelti og er það vel. Ég tel mikilvægt að mjög fast verði tekið á þessum málum. Nú þegar hefur þingmaður Framsóknarflokksins beðið um, og formaður nefndarinnar tekið undir það, að í allsherjar- og menntamálanefnd verði opinn fundur um málefni sem tengjast einelti og við í nefndinni munum fara gaumgæfilega yfir þau.

Við erum vonandi öll sammála um að þrátt fyrir táknræna athöfn um jákvæð samskipti í Höfða í dag, þar sem sveitarfélögin og fleiri koma að málum, er engu að síður mikilvægt að við sjáum aðgerðir og vitum hvaða hugmyndir og ákvarðanir ríkisstjórnin sjálf ætlar að fylgja eftir. Við vitum að greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum birtist í júní 2010, fyrir rúmu ári síðan. Það sem ég vil spyrja um er: Hvernig hefur ráðuneytið fylgt þessu eftir, ekki síst innan skólanna? Ég gæti tekið hér umræðu um einelti á vinnustöðum og einelti víðar í samfélaginu en ég ætla núna að einblína á skólana. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað ráðherra hefur gert til að fylgja eftir þeim aðgerðum sem boðaðar voru í skýrslunni varðandi símenntun kennara og kennaramenntun, upplýsingar og fræðslu. Hvað með Olweusarverkefnið sem við í nefndinni fengum upplýsingar í dag um að í raun væri árangurinn tvíbentur af? Ég vil vita hvað ráðuneyti menntamála hefur gert á því ári sem hefur liðið síðan skýrslan kom fram.

Ég vil sérstaklega taka fram að ég fagna þessu framtaki varðandi daginn í dag. Hann er táknrænn. Það sem við þurfum hins vegar í samfélaginu eru aðgerðir gegn einelti, ekki síst innan skólakerfisins. Við heyrum skelfilegar fréttir, m.a. um vanlíðan barna, bæði þolenda en ekki síður gerenda, innan skólakerfisins. (Forseti hringir.) Á því verðum við að taka með markvissum hætti.