140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

barátta gegn einelti.

[13:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og það er jákvætt að við tökum þetta mál upp í þessum sal eins og annars staðar. Þetta er málefni sem mér finnst að við eigum að ræða bæði á hinum pólitíska vettvangi sem annars staðar.

Það er rétt að í dag er haldinn dagur án eineltis en það er ekki þar með sagt að þetta sé eitthvað sem eigi bara að ræða í dag. Þetta er auðvitað mál sem á að vera stanslaust í umræðunni.

Starfshópur um eineltismál sem starfaði á vegum þriggja ráðuneyta, menntamála-, félags- og heilbrigðisráðuneytis, skilaði skýrslu með ýmsum mögulegum aðgerðum sem sneru bæði að skólum og stofnunum. Í kjölfar skýrslunnar var stofnuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Hugsunin er að tengja saman þessa víðu sýn milli ráðuneyta á vandann. Ráðinn var verkefnisstjóri sem hefur í raun og veru tvíþætt hlutverk, annars vegar að standa að því sem við getum kallað frumkvæðisaðgerðir gegn einelti í kerfinu og hins vegar að vera skólum og menntastofnunum til ráðgjafar en líka öðrum stofnunum sem lenda í eineltisvanda.

Fram kemur í skýrslu starfshópsins að það kemur stundum upp að einstakar stofnanir eða skólar telja sig ekki geta leyst málin, leita áfram en finna ekki rétta aðilann sem hægt er að leita til. Starfshópurinn kom því fram með hugmynd um fagráð um eineltismál. Fagráðið mun starfa með verkefnisstjóranum þannig að stofnanir geta nú leitað til hans. Ég get nefnt raunveruleg dæmi um mál sem upp hafa komið varðandi einelti í skólum þar sem verkefnisstjórinn ásamt starfsfólki menntamálaráðuneytisins hefur farið á staðinn og verið til ráðgjafar og upplýsingar. Við erum því í senn að reyna að sinna því að vekja fólk til vitundar og hafa frumkvæði í málunum en líka að veita ráðgjöf þegar mál koma upp.