140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

sala Grímsstaða á Fjöllum.

[13:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota tækifærið og spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í framgang mála hvað varðar jörðina Grímsstaði á Fjöllum.

Eins og við vitum hefur sú jörð verið til sölu um alllangan tíma en hefur nú selst þar sem kínverskur aðili, Huang Nubo, ef ég ber það rétt fram, hefur keypt jörðina og skrifað undir samninga með fyrirvara um samþykki stjórnvalda. Ástæða mín fyrir að koma hingað upp er að spyrja um þetta vegna þess að nú er liðinn hátt í tveir og hálfur mánuður síðan salan átti sér stað en enn hefur ekkert svar komið. Mér er kunnugt um að eitt bréf hefur farið frá innanríkisráðuneytinu og því var svarað um hæl frá viðkomandi aðila.

Til rökstuðnings vil ég segja að fram hefur komið hjá fjölmörgum aðilum að þeir styðja þessi kaup og eru þeim hlynntir vegna þess að eins og menn segja á þessu svæði er núna komið þetta „eitthvað annað“ sem hefur verið talað um í svo langan tíma. Þá vona ég að ekki sé fyrirstaða vegna þess. Við skulum líka hafa í huga að væri þetta einstaklingur frá Evrópska efnahagssvæðinu að kaupa jörðina væri þetta orðið klárt.

Norðurþing hefur lýst áhuga á þessu og stuðningi við þetta og Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi hefur líka fagnað þessum áformum. Það hefur komið fram frá umboðsaðilum þessa aðila að hann er meðal annars tilbúinn til að afsala sér vatnsréttindum, hann er tilbúinn til að tengja saman þjóðgarðinn frá norðri til suðurs og tilbúinn til að taka þátt í að efla innviði samfélagsins og koma að markaðsmálum fyrir svæðið og svo má lengi telja.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar er einfaldlega þessi: Hvenær hyggst ráðuneytið svara erindi um undanþágu og er einhver ástæða til að halda að það svar verði neikvætt? Ég spyr vegna þess að mér hefur fundist koma fram í svörum hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra í fjölmiðlum um þetta mál að hann væri mjög neikvæður fyrir því.