140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

byggðastefna.

[13:52]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það áðan að hinir þykku veggir á milli ráðuneyta eru það sem veldur vandanum, þ.e. áratuga uppsafnaður vandi. Því erum við að breyta núna og við höfum gert breytingar á lögum á Stjórnarráðinu til þess að ná því fram. Það skiptir öllu máli í því sambandi að við horfum heildstætt á hlutina og vinnum með öðrum landshlutum til að ná sem bestum árangri í byggðamálum. Það þurfum við að gera núna, við þurfum að vinna okkur inn í það umhverfi. Þau skref sem ríkisstjórnin stígur nú eru mikilvæg vegna þess að þau hafa ekki verið stigin áður. Það sem hv. þingmaður las úr skýrslu Evrópusambandsins er arfur sem þessi ríkisstjórn fékk í fangið þegar hún tók við völdum. (Gripið fram í.) Við höfum síðustu árin unnið að því að bæta úr þessu og það er svo sannarlega ætlun okkar, ekki síst viljum við vinna að því með heimamönnum á hverjum stað. Það er markmið þessarar ríkisstjórnar, virðulegi forseti, að byggja upp öflugar byggðir víðar en bara á suðvesturhorninu, eins og þróunin hefur verið.