140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

eftirlit með símhlerunum.

[13:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður víkur að hvað eftirlitið snertir. Reyndar var það fyrrverandi ríkissaksóknari sem sagði að um langt skeið hefði eftirlitið ekki verið sem skyldi og gef ég mér að það hafi ekki aðeins verið vegna fjárskorts heldur einnig á tímum sem ríkissjóður hafði úr meira fjármagni að moða. Þótt eftirlitið sé ekki fyrir hendi sem skyldi, og þar þarf vissulega að bæta úr, er ekki þar með sagt að ekki sé farið að lögum og reglum í þessum efnum, að fólk sé ekki látið vita.

En ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að hafa þessi mál í góðum farvegi. Þau tilvik sem hv. þingmaður vísar til krefjast öll dómsúrskurðar. Síðan er það rétt að eftirlitið þarf að vera fyrir hendi. Lögreglan hefur vísað til þess að það séu fleiri aðilar sem þarna koma að málum og við þurfum að huga að. Þannig er það að við símhleranir, sem lögreglan ræðst í og gerir að undangengnum dómsúrskurði, þarf að koma til sögunnar símafyrirtækið sem tengir símana. Það er þáttur sem þarf líka að huga að og lögreglan, greiningardeild ríkislögreglustjóra, hefur vakið sérstaka athygli á því.

Ég vil því taka undir með hv. þingmanni, við þurfum að hafa þessi mál í sem allra bestu legi en ég ítreka þó að enda þótt ríkissaksóknari hafi ekki rækt lagalegar skyldur sínar í þessu efni, hugsanlega vegna fjárskorts síðustu mánuði og missiri, er ekki þar með sagt að ekki hafi verið farið að settum lögum og reglum.