140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Því miður hefur verið lítið um upplýsingagjöf til þingsins og landsmanna allra eftir að umsókn um aðild að ESB var lögð inn á sumardögum 2009. Þá upphófst það aðlögunarferli sem við erum nú stödd í. Það hefur orðið smábreyting á hér á haustdögum á þessu þingi vegna þess að nú hefur verið tekin ákvörðun um það í þingsköpum að opna nefndafundi. Á opnum fundi í utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd í gær, sem haldinn var sameiginlega með þessum nefndum, þar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom fyrir nefndina, kom fram ýmislegt sem varðaði stöðu aðlögunarferlisins að ESB. Sú umræða sem ég stend fyrir — ósk kom fram um það að hún yrði langtum fyrr á þessu þingi en hæstv. utanríkisráðherra sá sér hvorki fært að eiga orðastað við mig né þingmenn fyrr en nú, sem er kannski ágætt í ljósi þess að þessi fundur var haldinn í gær. Þar kom hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sjónarmiðum sínum á framfæri og þá getum við þingmenn fylgt því eftir með þessum umræðum í dag við hæstv. utanríkisráðherra.

Það hefur komið í ljós nú að sú flýtimeðferð sem Samfylkingin fullyrti á sumardögum 2009 að umsóknin fengi var blekking ein. Sú gulrót sem notuð var, að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið vegna evrunnar, er einnig blekking ein. Þau rök að við þyrftum að ganga í Evrópusambandið til að vera þjóð á meðal þjóða er einnig blekking ein því að Evrópa brennur og evrusamstarfið er að liðast í sundur. Ég skil ekki hví ríkisstjórnin sér þetta ekki. Ég skil ekki þá meðvirkni að hæstv. ríkisstjórn, sem reynir að stjórna innanríkismálum á Íslandi, skuli ekki geta séð hvað er að.

Frekleg afskipti Dana af innanríkismálum okkar Íslendinga eru hneyksli. Hvergi á byggðu bóli hafa innanríkismál eins ríkis verið sérstaklega sett í stjórnarsáttmála annars ríkis en það helgast líklega af því að Danir taka við stjórnun Evrópusambandsins um næstu áramót. Sumir telja að þetta ákvæði í ríkisstjórnarsáttmála Danmerkur hafi verið pantað af ríkisstjórn Íslands. Hæstv. utanríkisráðherra fær þá tækifæri til að svara fyrir það hér.

Það er líka mörgum að verða ljóst að ESB-aðlögunarferlið gengur yfir höfuð ekki upp. Einn samningamaður íslensku ESB-nefndarinnar, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, hefur efast í ræðu og riti um styrk ríkisstjórnarinnar til að halda umsókninni áfram. Það er einnig ljóst að 65% landsmanna vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli því halda áfram með þessi mál. Það er einnig orðið ljóst að yfirgangur ESB er slíkur í þessu aðlögunarferli að nú hefur ráðherraráðið sett opnunarskilyrði vegna 11. kaflans, um landbúnaðar- og byggðamál, og neitar að hefja viðræður við Íslendinga fyrr en þau liggja fyrir. Opnunarskilyrðin eru enn óskilgreind hjá ríkisstjórninni og því er málið í miklum hnút.

Það vita líka allir sem vilja vita að ESB er í miklum vandræðum með sjávarútvegskaflann því að sambandið sjálft er stjórnlaust og stefnulaust í sjávarútvegsmálunum og hefur boðað breytingar á sjávarútvegsstefnu sinni árið 2014. Því er ekki vitað hvort Íslendingar eru að sækja um hina gömlu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða hina nýju sem er boðuð í ársbyrjun 2014. Þetta er allt mjög einkennilegt, virðulegi forseti. Á meðan ESB-aðlögunarferlið á hug ríkisstjórnarinnar allrar liggja ráðuneytin nánast á hliðinni og ráðherrar koma ekki frá sér brýnum frumvörpum til að koma atvinnulífi hér af stað í landinu né að koma til hjálpar heimilum.

Á þessu 140. þingi, sem sett var 1. október, og á áætlun þingsins til 1. desember eru einungis rúm tíu ríkisstjórnarmál á dagskrá auk frumvarps til fjárlaga og fjáraukalaga. Þetta er hneyksli, virðulegi forseti, og vanvirðing við Alþingi en þetta sýnir hvar áherslur ríkisstjórnarinnar liggja. Þessi ríkisstjórn hugar ekki að innanríkismálum.

Mig langar því í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hver er raunveruleg staða í aðlögunarferlinu að ESB? Er ekki tímabært að hætta þessari vitleysu og draga umsóknina til baka? Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lýsti því yfir á fundinum í gær að það væri einlæg trú sín að hugsanlegur aðildarsamningur við ESB yrði felldur (Forseti hringir.) í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Virðulegi forseti. Er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki eini maðurinn í ríkisstjórninni sem sér þessi mál með réttum gleraugum?