140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að koma hérna inn á nokkur atriði sem komu fram í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra sem eru verulega á gráu svæði eða eiga ekki stoð í raunveruleikanum. Í fyrsta lagi að kannanir hafi sýnt að meiri hluti þjóðarinnar vilji halda þessu ferli áfram. Á síðustu sex mánuðum hefur ein könnun komið fram sem hefur sýnt það og birtist í Fréttablaðinu unnin af Fréttablaðinu sjálfu. Á sama tíma hafa komið fram tvær kannanir sem Capacent hefur unnið sem hafa sýnt hið gagnstæða.

Í öðru lagi að ekki eigi sér stað einhvers konar aðlögunarferli. Hæstv. utanríkisráðherra hefði getað horft á opinn fund atvinnuveganefndar og utanríkismálanefndar í gær þar sem þetta barst í tal og það er alls ekki ljóst hvort um aðlögunarferli er að ræða eða ekki samkvæmt því.

Í þriðja lagi um að allt sé opið. Það veit enginn hvar samningsskilyrði í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum liggja. Hvar eru þau? Þau eru ekki birt opinberlega, ekki var hægt að upplýsa um það á opnum fundi í gær hver væru nákvæmlega samningsskilyrði í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum þannig að það er á óljósu svæði líka.

Í fjórða lagi þegar farið er að tala um efnahagsmál, og þegar hæstv. utanríkisráðherra fer að tala um efnahagsmál í þessu sambandi, og mikilvægi þess fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og annað því um líkt og er jafnvel farinn að ráðast á nóbelsverðlaunahafa og aðstoðarritstjóra virtra tímarita í þessum tilgangi er auðvitað mjög skemmtilegt að rifja upp ummæli hæstv. utanríkisráðherra sjálfs um sína þekkingu á efnahagsmálum. Það kom einmitt fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, með leyfi frú forseta, þar sem hæstv. utanríkisráðherra segir:

„Bíddu, á ég að fara þarna? Ég hef hvorki áhuga né vit á þessu.“

Þetta var um efnahagsmál. (Gripið fram í.)

Í framhaldinu, með leyfi frú forseta, segir hæstv. utanríkisráðherra:

„Ég var þarna náttúrlega eins og fiskur sem stokkið hefur upp á grasbala.“

Þetta er hæstv. utanríkisráðherra að lýsa eigin þekkingu á efnahagsmálum og svo er hann kominn út á vígvöllinn að ræða við nóbelsverðlaunahafa (Forseti hringir.) í hagfræði. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti nú að fara að koma sér af grasbalanum og aftur ofan í vatnið. [Hlátur í þingsal.]