140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Mikilvægast er fyrir okkur Íslendinga að hefja sem fyrst viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál og það gengur of hægt. Evrópusambandið er enn ekki reiðubúið að hefja viðræður um sjávarútvegsmál og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki tilbúinn með verkáætlanir til að hefja megi viðræður um landbúnaðarmál. Á þessu þarf að verða breyting því að almenningur á kröfu á samningsniðurstöðu sem hann geti tekið ákvörðun um í allsherjaratkvæðagreiðslu hvort hann vilji eða vilji ekki.

Utanríkisráðherra hefur haldið vel á þeim þætti sem honum hefur verið falinn af Alþingi en ýmsir virðast telja ástæðu til að tefja, fresta eða jafnvel afturkalla umsóknina vegna erfiðleika sunnar í álfunni, á Grikklandi og Ítalíu. Það er mikill misskilningur. (Gripið fram í.) Íslendingar munu ekki taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu út frá grískum eða ítölskum hagsmunum, heldur íslenskum hagsmunum og þá ekki síst á þessum lykilsviðum, um spurninguna hvaða forræði við munum hafa yfir náttúruauðlindum okkar þegar við höfum fengið aðild.

Verkefni okkar er að leiða þessi mál til lykta. Stjórnmálaöfl sem telja að það eigi að tefja þau, fresta eða afturkalla sinna ekki forustuhlutverki sínu. Skylda okkar á erfiðum tímum í sögu landsins er að kanna til hlítar þá kosti sem við eigum í stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar og treysta íslenskum almenningi til að ákveða í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu (Gripið fram í.) hvað Ísland á að verða þegar það verður stórt. (Gripið fram í.) Alþingi hefur ákveðið að fara í þær samningaviðræður og það má enginn, hvorki stjórnmálamaður né embættismaður, tefja fyrir því ferli og þvælast þannig fyrir því að fólkið í landinu fái að taka ákvörðun um það hvort við eigum að vera (Forseti hringir.) í ESB eða ekki.