140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar umræður. Það er gaman að sjá evrukratana koma upp og verja Evrópusambandið og tala um skotgrafir og ég veit ekki hvað. Ég er raunsæismanneskja og lít málið sömu augum og Evrópubúar. Evrópa er að hrynja og Evrópusamstarfið er í uppnámi. Hversu oft þarf að segja hæstv. ríkisstjórn þessa staðreynd? Hér er kallað að við séum ekki í aðlögunarferli. Ég minni hv. þm. Guðmund Steingrímsson á að ESB kallar sjálft viðræðurnar aðlögunarviðræður og stækkunarskrifstofa ESB segir að ekki megi tala um samningaviðræður, heldur sé um að ræða viðræður um hvenær og hve hratt umsóknarríki aðlagist regluverki ESB. Við vitum alveg fyrir hvað ESB stendur. Ísland er að sækja um aðild að ESB, en ESB er ekki að sækja um aðild að Íslandi. Við skulum hafa það á hreinu. (Gripið fram í.)

Mér finnst hálfaumkunarverð rökin sem hæstv. utanríkisráðherra kom fram með í ræðu sinni, frú forseti. Hér er verið að beita hræðsluáróðri. Við hvað er fólk hrætt? er spurt. Út af hverju fær þjóðin ekki að greiða atkvæði um aðildarsamning? Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga frá mér sem gengur út á það að við fáum að greiða atkvæði nú þegar um það hvort halda eigi áfram þessari vitleysu eða ekki. Velji þjóðin að þetta haldi áfram hefur ríkisstjórnin umboð. Vilji þjóðin draga það til baka hefur ríkisstjórnin ekki umboð, enda vita allir að ríkisstjórnin hefur ekki umboð til að halda þessu áfram.

Hæstv. utanríkisráðherra teflir fram þau rökum að Ísland sé hið pólitíska vottorð sem Evrópusambandið þarfnist nú. Almáttugur, þvílík rök. Það eru allir á hnjánum í þessu aðlögunarferli og ef Ísland er allt í einu að verða að einhverri læknastofu Evrópusambandsins, (Forseti hringir.) jú, ástæðan er auðlindirnar sem Evrópusambandið vantar til að geta haldið áfram að starfa og dafna. (Forseti hringir.) Það hefur komið fram í máli erlendra sérfræðinga en (Forseti hringir.) á það kýs hæstv. utanríkisráðherra að hlusta ekki.