140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

staðan í aðildarferlinu við ESB.

[14:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. málshefjandi Vigdís Hauksdóttir ætti að eyða pínulitlum tíma í að lesa sér til um Evrópusambandið. Að halda fram þeirri firru (Gripið fram í.) að auðlindir séu í uppnámi út af aðild er algerlega fráleitt og væri hægt að fara yfir það lið fyrir lið. (Gripið fram í.) Við skulum þess vegna hafa aðra utandagskrárumræðu um það.

Hv. þingmaður segir að allir sjái, og hún sé sannfærð um það, að Evrópusambandið sé að hruni komið. Ef það er rétt hjá hv. þingmanni, af hverju er hún þá að eyða tíma í þessa umræðu? Leysist þá ekki vandamálið af sjálfu sér?

Ég held það sé þvert á móti. Vitaskuld er Evrópusambandið og evrusvæðið í miklum vanda sem við ræddum á þinginu seint á síðasta ári. Hann var séður fyrir og hann er dýpri og erfiðari en menn töldu. Ég held hins vegar að út úr þessum vanda sigli evran sterkari en hún var áður. Það kann að vera að umbúðir hennar og umbúnaður breytist, þverbitarnir verði traustari. Fyrir Íslendinga skiptir það máli vegna þess að þegar kemur þá að því að taka afstöðu til samningsins eru valkostirnir tærari og skýrari.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hitti kannski naglann á höfuðið þegar hann sagði: Við eigum að tala um meginefni, um framtíðarsýn, hvað felist í aðild. Ég hef lagt fram þessa framtíðarsýn eins og svo margir aðrir í þinginu. Ég tel að þetta sé besta leiðin út úr þeirri kreppu sem við höfum verið í og inn í framtíðina. Ég tel að það skipti miklu máli fyrir okkur að ná þeim áfanga að eiga kost á gjaldmiðli eins og evrunni sem þá yrði endursköpuð; traustari, eiga kost á lægri vöxtum, afnámi verðtryggingar og afnámi gjaldeyrishafta. (Gripið fram í: Hvaða rugl er þetta?) Hver er þá hinn valkosturinn? Er það króna í gjaldeyrishöftum sem við munum aldrei losna við? Þeir sem eru á móti þessari framtíðarsýn hafa eina skyldu, þeir verða að leggja fram sína eigin framtíðarsýn. Það hafa þeir ekki gert, það eina sem þeir hafa gert er að leggja fram Heimssýn — sem er orðið samtök gegn lýðræði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Hlátur í þingsal.]