140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[14:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svokallað aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur verið við lýði mestan part frá árinu 1999 með undantekningum þó. Hæst nam framlagið tæpum tveimur milljörðum kr. á árinu 2007 reiknað á núgildandi verðlagi. Tilgangur þessa hefur verið að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaganna.

Það er enginn vafi á því að þetta framlag hefur skipt mjög miklu máli hjá einstökum sveitarfélögum, einkanlega þeim á landsbyggðinni sem af ýmsum ástæðum hafa búið við þröng rekstrarskilyrði. Þessi sveitarfélög nutu almennt ekki þeirrar tekjuþróunar sem varð þegar tekjumyndun var sem mest í samfélaginu. Eins og oft hefur verið sagt: Þenslan heimsótti þessi sveitarfélög ekki. Þau nutu því ekki þess ábata sem sveitarfélög, einkanlega á höfuðborgarsvæðinu, nutu þá. Við þær aðstæður þurftu sveitarfélögin að freista þess að halda úti þjónustu og útgjaldastigi í samkeppni við sveitarfélög sem sáu tekjur sínar hækka ár frá ári, m.a. vegna mikilla umsvifa á húsnæðismarkaðnum. Það var til að jafna þennan aðstöðumun sem aukaframlagið varð nær árvisst og spilaði mikla rullu í fjárhagsáætlun einstakra sveitarfélaga.

Í fyrra nam aukaframlagið sem ríkissjóður stóð straum af rúmlega einum milljarði kr. á núgildandi verðlagi. Þá voru hins vegar gerðar breytingar á reglum um útdeilingu fjármagnsins. Aðalbreytingin á milli áranna 2009 og 2010 fólst í því að sett var inn nýtt viðmið vegna íþyngjandi skulda sveitarfélaga. Þetta leiddi auðvitað til tiltekinna breytinga á ráðstöfun fjármagnsins. Fyrir hin skuldugu sveitarfélög skipti þetta miklu máli þó að önnur sem ekki voru þjökuð af þeim vanda en höfðu lágar tekjur hafi farið halloka út úr þessum breytingum.

Það er til marks um þýðingu þessa fjár að 17 sveitarfélög í landinu fengu meira en 2% af tekjum sínum frá aukaframlaginu. Hvers konar breyting á aukaframlaginu, svo ekki sé talað um almenna skerðingu þess, hefur því mikil áhrif á stöðu þeirra. Ég tek sem dæmi þrjú sveitarfélög sem í fyrra fengu meira en 5% tekna sinna af aukaframlaginu: Fjallabyggð, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur. Það þarf ekki að orðlengja það, breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar munu hafa mikil áhrif á tekjustreymi þeirra og möguleika til þess að standa undir þjónustu á borð við skóla, félagsþjónustu og annarri þjónustu sem íbúar gera kröfur til.

Til viðbótar er það þannig að þegar sveitarfélögin eru í miðjum klíðum við fjárhagsáætlanagerð sína fyrir næsta ár er alls ekki ljóst hvað þau munu fá í sinn hlut við úthlutun fjármuna jöfnunarsjóðs og allsendis óvíst hvernig aukaframlaginu verður úthlutað. Setjum þetta í samhengi við stöðuna í stærsta sveitarfélagi landsins, Reykjavík. Heildarskatttekjur höfuðborgarinnar eru 50 milljarðar kr., 5% af þeirri upphæð er 2,5 milljarðar kr. Ég fullyrði að engum dytti í hug að fara þannig með þetta sveitarfélag af hálfu ríkisins. Óvissa um tekjustofn sem búið er að ákvarða með heildarfjárveitingu mundi aldrei verða liðin þegar í hlut ætti stórt sveitarfélag á borð við höfuðborgina. Hin minni sveitarfélög verða hins vegar að þola þessa óvissu og raunar yfirvofandi stórfellda skerðingu á fjárveitingunum.

Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs mun aukaframlagið á þessu ári nema 700 millj. kr. Það er 30% skerðing á milli ára. Til viðbótar kemur svo að hæstv. innanríkisráðherra og fjármálaráðherra hafa einhliða ákveðið að meira en 40% af þeim fjármunum, 700 millj. kr., verði varið til eins sveitarfélags, Álftaness, til að takast á við fjárhags- og skuldavanda þess. Eftir standa þá 400 millj. kr. sem munu fara til annarra sveitarfélaga sem eru þó í sárri nauð og þurfa mjög á þessum fjármunum að halda. Þetta þýðir í raun að skerðingin á því sem sveitarfélögin sem eftir standa fá í sinn hlut nemur 60% á milli ára. 60% skerðing á tekjum sveitarfélaga, sem eru eins háð aukaframlaginu og ég hef þegar rakið, er þess vegna harkalegt kjaftshögg og ekkert minna og mun augljóslega hafa mikil áhrif á rekstur margra þeirra.

Það sem er verið að gera í rauninni er að velta fjárhagsvanda eins tiltölulega stórs sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu yfir á herðar minni sveitarfélaga á landsbyggðinni, einkanlega þeirra skuldsettari, það er ekki flóknara en það. Gleymum því ekki að þær reglur sem giltu síðast um ráðstöfun aukaframlagsins þýddu að það voru einkanlega skuldugri sveitarfélögin á landsbyggðinni sem nutu þess. Nú eru það einmitt þau sveitarfélög sem eiga að axla byrðarnar af því að lækka skuldir eins einstaks sveitarfélags með því að sjá á eftir fjármunum sem þau höfðu gildar ástæður til að ætla að þau fengju að njóta á þessu ári. Verið er að velta byrðum af þeim skuldugasta yfir á þá næstskuldugustu.

Þetta fyrirkomulag gengur auðvitað ekki. Þetta er óréttlátt og ósanngjarnt og ég höfða til réttlætiskenndar hæstv. innanríkisráðherra þegar ég tek þetta mál nú upp á Alþingi. Ella hljótum við að segja líkt og Jón Hreggviðsson forðum: Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti. Það er enginn vafi á því að mikill uggur er nú í brjóstum margra sveitarstjórnarmanna sem þurfa að takast á við erfiða fjárhagsáætlunargerð. Þeirra mun ekki bíða auðvelt viðfangsefni, að reyna að semja við lánardrottna sína um skuldbreytingar, kynna íbúunum að skerða þurfi ólögbundna þjónustu og draga úr bráðnauðsynlegum fjárfestingum. Þess vegna verða það lokaorð mín til hæstv. innanríkisráðherra að skora á hann að draga til baka þær fyrirætlanir að skerða framlög til sveitarfélaganna um rúmlega 40% umfram það sem lækkun framlagsins frá síðasta ári um 30% (Forseti hringir.) felur í sér.