140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[14:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef reyndar sitthvað að athuga við þennan prósentureikning hv. þingmanns en hann vekur máls á mjög mikilvægu málefni sem brennur á sveitarfélögunum og svo sannarlega á ríkinu líka og ríkissjóði. Staðreyndin er náttúrlega sú að við erum að bregðast við gríðarlegu tekjuhrapi hjá ríkinu og einnig hjá sveitarfélögunum, við þær aðstæður að ríki og sveitarfélögin mörg eru mjög illa skuldum vafin. Þannig reiknast mönnum til að meira en 20 sveitarfélög í landinu séu með nettóskuldir yfir 150% af heildartekjum en samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum höfum við sett okkur það markmið að sveitarfélögin verði rekin samkvæmt þeirri reiknireglu þegar til langs tíma er litið, til þriggja ára. Við höfum gefið aðlögunartíma sem nemur tíu árum til að ná því marki. Þetta er vandinn, hann er mjög mikill.

Eitt sveitarfélag, Álftanes, hefur lent í þeirri ógæfusömu stöðu að skipuð hefur verið sérstök fjárhaldsstjórn yfir það, en tíu, tólf sveitarfélög hafa átt í viðræðum við eftirlitsnefnd með fjárhag sveitarfélaga. Ég tek því undir með hv. þingmanni að vandinn er mikill. En það er mikilvægt að setja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og aukaframlagið í rétt sögulegt samhengi. Það gerði reyndar hv. þingmaður þegar hann vék að hinni sögulegu rót sem teygir sig aftur til ársins 1999 þegar aukaframlagið kom fyrst til sögunnar. Það hefur ekki verið lögbundið framlag, t.d. kom ekkert aukaframlag árin 2002 og 2005 og eins og kom fram í máli hv. þingmanns hefur framlagið verið breytilegt frá ári til árs, fór tvö ár yfir einn milljarð en síðan um tíma niður í 400 millj. kr.

Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er framlagið á þessu ári 700 millj. kr. Þetta framlag var skilyrt af hálfu fjárveitingavaldsins og átti að renna til þeirra sveitarfélaga sem áttu í brýnustum vanda. Hér fyrr á árum var aukaframlagið látið renna til sveitarfélaga sem urðu fyrir barðinu á byggðaröskun, urðu fyrir fólksfækkun. Þau fengu aukaframlagið en eftir hrun var farið að beina því til þeirra sveitarfélaga sem voru verst stödd og þar erum við aftur komin að Álftanesi.

Þegar hv. þingmaður segir að ríkisstjórnin hafi tekið einhliða ákvörðun um ráðstöfun 700 millj. kr. aukaframlagsins er það rangt. Fram hafa farið miklar viðræður um hvernig ætti að standa að þessum málum. Fjárhaldsstjórn með Álftanesi hafði óskað eftir því að allur pakkinn, öll upphæðin yrði látin renna til Álftaness óskipt. Þessu mótmæltu sveitarfélögin mjög harðlega, í og með á þeim forsendum sem hv. þingmaður nefndi, að það sé óeðlilegt að láta það bitna óbeint á sveitarfélögum sem búa við lakan fjárhag að hlaupa undir bagga með því sveitarfélagi sem verst er á sig komið.

Þess vegna varð til ný formúla, að á þessu ári rynnu einvörðungu 300 millj. kr. af þessu framlagi sem eyrnamerkt var með þessum hætti, til Álftaness. 400 millj. kr. skyldu renna til annarra sveitarfélaga og menn hafa rætt samkvæmt hvaða reglum það skuli gert. Menn eru að skoða ýmsa þætti og gera það ekki á einhvern einhliða hátt, því fer fjarri. Það er heldur ekki nein einhliða umræða sem fram fer á milli innanríkisráðuneytisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar þegar skoðað er hvernig sé hægt að bregðast við vanda af þessu tagi til frambúðar, hvort það sé t.d. ráð að stofna sérstakan viðlagasjóð þar sem vextir eða arður af lánveitingum Lánasjóðs sveitarfélaga verði látinn renna í slíkan sjóð. Menn horfa til þess að lánasjóðurinn hefur ekki verið reiðubúinn að niðurskrifa skuldir eins og aðrir lánveitendur hafa gert, (Forseti hringir.) og því vilja menn kanna hvort hægt sé að búa til viðlagasjóð þar sem lánasjóðurinn kæmi að málum.

Ég er einfaldlega, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að ítreka að verið er að taka á þessum málum í eins góðu samstarfi við sveitarfélögin og nokkur kostur er.