140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[14:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég vil koma inn á nokkra punkta.

Það er auðvitað augljóst að vandinn sem við er að etja er gamall tekjuvandi. Kannski væri réttast að fara í uppskiptingu á tekjum milli ríkis og sveitarfélaga að nýju því að þær tekjur sem urðu til í bóluhagkerfinu á suðvesturhorninu voru auðvitað tekjur sem hefðu ekki átt að renna til reksturs sveitarfélaganna, þetta voru braskarapeningar af lóðasölu og komu þeim síðan í koll þegar hrunið varð.

Sveitarfélögin mörg hver úti á landi nutu ekki þessa ágóða og áttu þar af leiðandi í þann tíma einnig við tekjuvanda að stríða. Tekjujöfnunarframlagið, aukaframlagið, var auðvitað fyrst og fremst veitt vegna fólksfækkunar og hefði átt að renna til þeirra sveitarfélaga áfram. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að þegar um er að ræða 3, 4 eða 5% af heildartekjum sveitarfélaga sem geta ekki aukið tekjur sínar á nokkurn annan hátt og verða fyrir fólksfækkun, getur ríkisvaldið ekki komið inn og tekið það af með lækkun á aukajöfnunarframlaginu.

Það má svo sem segja að stefna ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi sé sú sama og varðandi skuldir heimilanna þar sem allt er gert sem hægt er þegar menn eru orðnir gjaldþrota og tekið af þeim sem eru í næstversta flokknum þannig að þeir þrýstast smátt og smátt yfir í að verða gjaldþrota. Ég óttast að verið sé að gera það hér líka, peningar eru teknir af þeim sveitarfélögum sem þurfa hvað mest á þeim að halda og geta sér enga aðra björg veitt vegna fólksfækkunar og minni tekjumöguleika en það er gamall vandi. Þetta er tekjuvandi, ekki útgjaldavandi og ekki skuldavandi hjá þessum sveitarfélögum, ekki nema hjá einstaka sveitarfélagi.

Ég vil því hvetja hæstv. innanríkisráðherra til að auka fjármagnið til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þannig að aukaframlagið verði 1.200 millj. kr. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur reiknað út að það þurfi einfaldlega. Eins þarf að breyta reglunum og ekki á að fara þá leið sem ég var að lýsa. Kannski væri skynsamlegast (Forseti hringir.) að taka upp skiptingu á tekjum milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin geti staðið undir lögboðinni þjónustu.