140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

Aukaframlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

[15:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Forsenda þess að leysa vandann er að menn komi með lausnir og uppástungur um lausnir. Þær hafa ekki verið settar fram hér. En um eitt hef ég sannfærst. Í umræðu um þessi mál og reyndar um atvinnumál og samgöngumál að brýnt er að gera Ísland að einu kjördæmi og að við horfum öll heildstætt á málin en ekki út frá sjónarhóli einstakra kjördæma. Mér finnst það vera afskaplega vafasamt, svo ég kveði ekki fastar að orði, að reka fleyg á milli sveitarfélaganna eins og mér finnst menn vera að gera í umræðunni. Menn segja að verið sé að taka fjármuni af einum og færa í annars vasa. Staðreyndin er sú að fjárveitingavaldið ákvað að setja 700 millj. kr. í aukaframlag inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að taka, og það var skilyrt, á fjárhagsvanda þeirra sem byggju við hann verstan og þyngstan. Þá er eitt sveitarfélag í landinu sem þannig er komið fyrir að búið er að taka af því fjárráðin, það er búið að setja það undir fjárhaldsstjórn. Fjárhaldsstjórnin óskaði eftir því að til að ná niðurstöðu, lausn í málið og færa niður skuldir þessa tiltekna sveitarfélags þannig að það kæmist út úr vandanum, fengi það alla upphæðina til sín, 700 millj. kr. Út á það gekk upphafleg tillaga. Henni var mótmælt mjög harðlega, skiljanlega. Hlustað var á þau mótmæli og reynt var að komast að niðurstöðu um málamiðlun.

Síðan vil ég segja eitt að jöfnunarsjóðurinn hefur lögbundin framlög. Hér var bent á að hann ætti að horfa á útgjöld sveitarfélaganna, hann ætti að horfa á tekjurnar og hann ætti að skoða skuldastöðuna. Samkvæmt lögbundnum framlögum úr jöfnunarsjóði er tekið tillit til allra þessara þátta. Talað var um sameiningu sveitarfélaga, það er líka tekið á því í lögbundnum (Forseti hringir.) framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og horfi ég þá til hefðbundins skuldajöfnunarframlags.

Þessi umræða þarf að dýpka, þykir mér. Ég auglýsi eftir lausnum í stað upphrópana.