140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að margir hafa lent í vandræðum, en hvers vegna lendir fólk í vandræðum með skuldir sínar? Jú, það er vegna verðtryggingarinnar. Ég sakna þess að það er engin tillaga um afnám verðtryggingar í þessari efnahagsáætlun Sjálfstæðisflokksins.

Síðan finnst mér tillagan um að draga beri allar skattahækkanir til baka mjög óábyrg. Við erum að tala hér um 90 milljarða sem ríkið verður þá af. Rannsóknir sýna að eftir bankahrun eru skattstofnar mjög lengi að taka við sér. Það er afar ólíklegt að skattalækkun muni afla ríkinu 90 milljarða.

Ég vil jafnframt geta þess að í þessar tillögur vantar eitthvað um að standa beri vörð um grunnþjónustuna í velferðarkerfinu. Það kostar 110 milljarða á þessu ári að reka heilbrigðisþjónustuna. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn þá að skera niður heilbrigðisþjónustuna ef ekki er hægt að afla þessara tekna með (Forseti hringir.) sköttum?