140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:37]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að verðtryggingin sé ekki vandamál í sjálfu sér, heldur verðbólgan. Hversu hátt fóru vextirnir þegar óðaverðbólga varð og við vorum almennt með óverðtryggð lán á húsnæðislánamarkaðnum? Þeir fóru upp í 40%. Það þýddi að fólk þurfti að standa í skilum með rúmlega þriðjung af heildarlánastöðunni á næstu 12 mánuðum. (Gripið fram í.) Hver er þá hinn raunverulegi óvinur? Er það verðtryggingin? (Gripið fram í.) Eða er það verðbólgan? (LMós: Enginn hvati.) Menn verða að hafa sjón á vandamálinu en ekki afleiðingum þess.

Hér erum við að mæla fyrir tillögum sem munu auka fjölbreytnina í lánamöguleikum. Það þýðir ekkert að tala um að verðtryggingin sem slík hafi verið aðalhausverkurinn.

Varðandi skattana er ég ósammála því að það sé rétt að hækka skatta í efnahagslægð. Það er rangt. Það er líka rangt þegar menn gefa sér að sérhver skattahækkun muni skila auknum tekjum til ríkissjóðs með sama hætti og það er rangt að sérhver skattalækkun muni leiða til minni tekna (Forseti hringir.) ríkissjóðs. Það er löngu búið að afsanna þá kenningu. (Forseti hringir.) Hér er verið að mæla fyrir tillögum sem munu tryggja að velferðin í landinu standi á (Forseti hringir.) traustum fótum, ekki á sandi.