140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hér eru jafnframt fjölmörg atriði bæði í fjárfestingunum og hagstjórninni sem ég get fyllilega tekið undir. Það er líka ágætt í þessum tillögum sjálfstæðismanna að taka fjármál heimilanna fyrst og fremst fyrir.

Í c-liðnum vilja sjálfstæðismenn byggja á 110%-leiðinni sem einn af Hörpu-sérfræðingunum kallaði „lunacy“ eða tunglveiki og RÚV þýddi að miklu leyti á geðþekkari hátt fyrir ríkisstjórnina. Það kemur svolítið á óvart að sjálfstæðismenn skuli taka upp þá leið þar sem ég held að hún sé nánast ófær. Hefðum við ekki þurft að fara aðra leið til þess að koma í raun til móts við heimilin í landinu? Ég get tekið undir (Forseti hringir.) með þessum Hörpu-sérfræðingi, þessi 110%-leið er hálfgerð tunglveiki. (LMós: Heyr, heyr.)