140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það gafst ekki mikill tími í andsvör við hv. þingmann, framsögumann, þannig að vonandi gefst mér aðeins betri tími til að ræða efni málsins núna á næstu tíu mínútunum eða svo.

Ég ætla að byrja á því að viðurkenna að ég var eilítið ónákvæmur í ræðu minni áðan í andsvarinu. Að sjálfsögðu er minnst á peningamálastjórn í þessu plaggi Sjálfstæðisflokksins, en engu að síður er aðalspurningunni sem liggur undir ekki svarað, spurningunni sem atvinnulífið kallar eftir svari við, þ.e. hvort skipta eigi um mynt í þjóðfélaginu og heimilunum verði boðinn alvöruvalkostur í kaupum á húsnæði. Sjálfstæðismenn telja að hægt sé að leysa það með fjármálareglu sem er einhvers konar regla sem bindur útgjöld ríkissjóðs og jafnar þau út yfir lengri tíma. Sú hugmynd er til umræðu í viðskipta- og efnahagsnefnd um þessar mundir og fær þar málefnalega umfjöllun, um hana eru reyndar eilítið skiptar skoðanir að svo komnu máli, en við skulum sjá hvað setur.

Hins vegar eru það dálítil vonbrigði að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn ætlar ekki að taka þátt í þeirri umræðu hvort krónan eigi til lengri tíma litið að vera valkostur fyrir heimilin eða fyrir fyrirtækin í landinu. Hvernig ætla menn að losa íslenskt atvinnulíf úr þeim höftum sem það býr við? Hvernig ætla menn að stíga skrefið til framtíðar?

Ég vil ítreka að það er margt ágætt í tillögum Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið byggja þessar hugmyndir á þeim grundvelli sem lagður hefur verið undir stjórn núverandi ríkisstjórnar síðustu tvö árin. Hér er verið að spila eilítið djarfan leik að mér finnst. Hér er einblínt á að örva atvinnulífið og menn telja að til lengri tíma sé það betri leið, en ég tel að til skemmri tíma sé hætta á að staða ríkissjóðs verði sett í uppnám.

Í umræðu um skattalækkanir verðum við að hafa það í huga sem ég kom að í andsvari mínu, að í Svíþjóð, Þýskalandi, Danmörku og öðrum löndum með öflug velferðarkerfi vita menn að í gegnum velferðarkerfið, í gegnum menntakerfið, er hægt að sækja sjálfbæran hagvöxt til lengri tíma litið. Þess vegna ber að fara varlega og ganga ekki of langt í skattalækkunum.

Það er ein skattahækkun sem ég sé sérstaklega eftir og mér fannst blóðugt að samþykkja á sínum tíma, það var hækkun tryggingagjaldsins. Með þeirri breytingu var rangur hvati sendur inn í atvinnulífið, en gætum að því að skattbreytingar hjá núverandi ríkisstjórn hafa komið til vegna þess að við höfum þurft að bregðast við tekjufalli ríkissjóðs. Skattkerfið hvíldi um of á veltusköttum í bóluhagkerfinu og þeir hrundu og enginn mannlegur máttur, engin ríkisstjórn, hefði getað komið í veg fyrir það.

Það eru sömuleiðis vonbrigði að sjá í þessum tillögum að hér ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að leggja til að vikið verði frá rammaáætlun og menn fari strax í virkjun neðri hluta Þjórsár. Ég held að það sé skynsamlegt, bæði fyrir þá sem vilja virkja og þá sem vilja vernda, þá sem telja að við eigum að sækja hagvöxt framtíðarinnar í gegnum orkustefnuna, að bíða eftir rammaáætluninni. Við höfum verið að undirbúa þetta vinnulag í 12 ár. Við erum á lokasprettinum og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að klára þetta mál, bara til að skapa sátt, skapa frið um þetta verkefni til lengri tíma litið.

Það er mín skoðun, herra forseti, að hrun krónunnar hafi leikið almenning miklu verr en hrun bankanna, og að erlendir kröfuhafar og ríkissjóður hafi tekið á sig stærsta hluta bankahrunsins en hrun krónunnar hafi haft miklu víðtækari áhrif á heimilin og fyrirtækin. Þess vegna tel ég að krónan og gjaldmiðillinn sé kannski stóra spurningin sem við ættum að velta fyrir okkur til lengri tíma litið. Við hrunið tvöfölduðust skuldir velflestra fyrirtækja. 70–80% þeirra urðu tæknilega gjaldþrota. Við höfum því miður búið við hægagang í atvinnulífinu í kjölfarið.

Ég held að mikilvægt sé að við stjórnmálamenn förum að ræða hvernig samfélag við viljum búa til á Íslandi til framtíðar af því að svo virðist sem stjórnmálamenn séu hér að skiptast í tvo hópa. Sá sem hér stendur telur að nánara samstarf við alþjóðasamfélagið skapi forsendur til að skapa stöðugleika í fjármálum heimila og fyrirtækja til lengri tíma og með því að horfa út á við getum við byggt upp samkeppnishæft þjóðfélag sem laðar að fólk og fyrirtæki. Þess vegna eru vonbrigði að hlusta á málflutning stærsta stjórnarandstöðuflokksins sem vill leggja áherslu á haftaskipulag, þjóðernishyggju og hverfa aftur til þjóðfélagseinangrunar en þannig finnst mér málflutningur þeirra oft á tíðum vera.

Ég held að rökræðan um langtímastefnu samfélagsins snúist um opið eða lokað samfélag, samstarf eða einangrun, sjálfstraust eða ótta gagnvart umhverfinu. Við jafnaðarmenn teljum að velferð þjóðarinnar felist í opnu samfélagi þar sem hver einstaklingur býr við öryggi og velferð og hafi greiða möguleika til vaxtar. Við leggjum áherslu á jöfnuð, og það hefur sýnt sig í þeim breytingum sem við höfum gert á skattkerfinu, en um leið viljum við að hvers kyns hindrunum eða pólitískum takmörkunum verði vikið úr vegi. Þeim markmiðum eigum við að ná í samstarfi við alþjóðasamfélagið.

Við erum að því er virðist eini valkostur þeirra sem vilja uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs í alþjóðlegum tengslum og vilja losa heimilin og fyrirtækin undan oki verðtryggingar og hárra vaxta. Það sýnir sig vel í þeim efnahagstillögum sem Sjálfstæðisflokkurinn kynnir hér í dag. Hann ætlar ekki að koma með okkur í þá vegferð. Það eru vonbrigði.

Við verðum líka að hyggja að því að útflutningur skapar verðmæti hér á landi. Við þurfum að auka hann. Hvernig gerum við það? Þrjár af fjórum stoðum útflutningsins nýta vandmeðfarnar auðlindir til verðmætasköpunar og búa við skerta möguleika til vaxtar. Þessar greinar munu ekki geta staðið undir þeirri fjölgun starfa sem nauðsynleg er á næstu árum. Ungt, vel menntað fólk vill eiga kost á vel launuðum og spennandi störfum og þau er ekki að finna í nægilegu magni í álverum, sjávarútvegi eða ferðaþjónustu. Það liggur því beinast við að skapa forsendur á Íslandi fyrir öflugan hugverkaiðnað, tækni, þjónustu og iðngreinar þar sem samkeppnisforskotið liggur í hugviti, menntun og tækniþekkingu starfsfólksins. Slík fyrirtæki gegna lykilhlutverki í uppbyggingu á íslensku hagkerfi til lengri tíma litið. Fyrirtæki í þessum geira kvarta sáran undan oki íslensku krónunnar. Þau hafa óskað eftir betra aðgengi að fjármagni og erlendum mörkuðum. Við höfum möguleika til að skapa öflugan iðnað sem byggir á hugviti, tækni og skapandi hugsun en þá þurfum við að skapa slíkum fyrirtækjum umhverfi til vaxtar. Það er verkefni stjórnmálamanna að móta þannig umhverfi að fyrirtæki geti vaxið og dafnað á Íslandi. Það er verkefni okkar og að því eigum við að stefna.

Þessi hluti iðnaðarins er kannski sá vaxtarbroddur sem margar þjóðir horfa til, en án stefnubreytingar í íslensku efnahagslífi munum við eiga í miklum erfiðleikum með að halda þessum fyrirtækjum hér á landi. Gjaldeyrishöft skapa vandræði í alþjóðlegum rekstri og án hafta má búast við miklum sveiflum krónunnar sem skapar óöryggi. Þá þurfa fyrirtæki í þessum geira aðgengi að fjármagni á góðum vaxtakjörum, því er vaxtastig íslensku krónunnar þeim þungt. Opnun erlendra markaða og afnám tollmúra er mikilvægt en mestu skiptir þó öryggi í rekstrarumhverfi til lengri tíma. Þannig verða áætlanir að geta byggt á traustum forsendum til framtíðar. Það er mikilvægasta atvinnumálið á Íslandi í dag að skapa þannig umhverfi að fyrirtæki í hugverkaiðnaði, tækni-, iðn- og þjónustugreinum geti eflst á Íslandi. Vandamál Íslendinga eru heimatilbúin og án breytinga eigum við á hættu á að missa bestu fyrirtæki okkar úr landi.

Við stöndum á nokkrum tímamótum. Ef við viljum halda núverandi lífskjörum er um tvær leiðir að velja, annars vegar að keppa við láglaunasvæði í frumframleiðslu og hefðbundnum lágtækniiðnaði eða fylgja fordæmi þeirra þjóða sem mestum árangri hafa náð og hafa lagt áherslu á stöðug starfsskilyrði, stöðuga mynt og aukna áherslu á hátækniiðnað, menntun og rannsóknir. Ísland á að vera hluti af alþjóðlegu, opnu og heilbrigðu viðskiptaumhverfi sem tryggir gott rekstrarumhverfi fyrir verðmætustu fyrirtæki okkar. Þess vegna hafa jafnaðarmenn í Samfylkingunni barist fyrir aðild að Evrópusambandinu sem gefur þessum fyrirtækjum raunverulega möguleika til framtíðar. Þau hafa óskað eftir því að stjórnmálamenn þjóðarinnar taki þetta mál á dagskrá og það er skylda okkar að klára umsóknarferlið sem er í gangi núna og leiðir vonandi til aðildar, og leyfa þjóðinni svo að taka afstöðu til hennar.

Það eru vonbrigði fyrir jafnaðarmenn að flokkurinn sem telst vera til hægri við þá á litrófi stjórnmálanna ætli ekki að taka þátt í því verkefni sem fram undan er, að kanna til hlítar hvort hyggilegt sé fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu og taka upp nýja mynt. Fyrirtæki í þessum geira hafa kallað eftir því og þau eiga það inni hjá okkur stjórnmálamönnunum að við færum þeim þann möguleika að geta skipt um mynt, losnað við höft, búið við betri fjármagnskosti og aðgengi að mörkuðum o.s.frv. Það eru vonbrigði ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að taka þátt í því verkefni. Ef hann ætlar ekki að taka þátt í því getur hann ekki kallað sig flokk atvinnulífsins. Hann er þá bara flokkur hluta atvinnulífsins.

Þetta tel ég vera brýnasta verkefnið til að ná viðspyrnu hér í þjóðfélaginu og skapa sjálfbæran hagvöxt til lengri tíma litið. Þess vegna á að setja þessi mál á dagskrá.