140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:14]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég man eftir því að við sátum saman á fundi Siðmenntar við þingsetningu núna í haust. Þá flutti ung kona þar ræðu, sem ég man ekki alveg nafnið á akkúrat þessa stundina. Hún sagði að við ákvarðanatöku væri það eðli mannshugans að sækja upplýsingar úr umhverfinu sem styddu þá tilfinningu sem maður hefði. Það var eitthvað á þá leið. Það er kannski þess vegna sem ég man bara eftir rannsókninni þar sem talað er um að betra sé að lækka skatta en örva útgjöld. Ég man ekki eftir þeirri rannsókn sem hv. þingmaður vísaði til.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, og viðurkenni það, að við ættum að stíga varlegar til jarðar í að hækka skatta og horfa frekar til þess að skera niður í útgjöldum. En ég tel að við höfum gengið eftir þeirri línu nokkuð ágætlega í ríkisstjórnarsamstarfinu, þó að það hafi verið vandasamt, ég held að hlutfallið sé 55% á móti 45% í aðlögun að þeim breytingum sem við höfum gert til að ná niður fjárlagahallanum. Þannig hafa menn í raun og veru tekið undir bæði sjónarmiðin, að ég tel, þ.e. að fara eigi varlega í að höggva ríkisreksturinn of mikið niður því að það geti haft áhrif á hagkerfið, en stíga um leið varlega til jarðar í að breyta skattkerfinu. Ég endurtek það sem ég sagði áðan, ég tel að menn hafi farið nokkuð hyggilega leið í skattbreytingunum svona heilt yfir.

Ákveðið var í efnahags- og viðskiptanefnd í haust að skoða með þverpólitískum hætti peningamálastjórn og þá möguleika sem við stöndum frammi fyrir. Ég óttast ekki þá umræðu, hvort sem hún fer fram í þessum sal eða í þingnefndinni, hvaða valkosti við höfum í gjaldmiðilsmálum. Ég óttast þá umræðu ekki og ég held að það sé hið besta mál að fara í slíka umræðu. Ég hef lesið mér nokkuð til og hef komist að ákveðinni niðurstöðu en ég tel mjög hyggilegt að við tökum opna umræðu um þetta verkefni.