140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar. Varðandi fjárfestingarnar í sjávarútvegi er þingmaðurinn aðeins of bundinn við skip og báta. Ég er að tala um greinina í heild sinni, þar hefur verið í kringum 8% fjárfesting síðasta áratug, þ.e. fyrir þessi þrjú ár sem þetta hefur farið niður í algjört lágmark, og við sjáum til dæmis hvernig byggt var upp á Þórshöfn, 5 milljarðar þar. Það var byggt upp í kringum makrílvinnsluna í Neskaupstað, einir 4 milljarðar þar, o.s.frv. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að mikil fjárfestingarþörf er í landvinnslu, m.a. til að mæta vinnslu á nýjum tegundum eins og makríl. Það sem við erum jafnframt að segja er að það er mikil fjárfestingargeta í sjávarútvegi. Í tengslum við þessa vinnu hringdum við í útgerðirnar hringinn í kringum landið og spurðum hvað þau áætluðu að þau mundu fjárfesta. Það er algjörlega á hreinu að það er mikil fjárfestingargeta en fjárfestingarviljann vantar út af óvissunni.

Jafnframt spyr hv. þingmaður hvað það sé sem eigi að drífa áfram þessi miklu umsvif. Ég var að telja það upp fyrir hv. þingmanni, útskýrði það nákvæmlega, í gegnum fjárfestinguna. Ég er búinn að tala núna um sjávarútveginn, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru ekki raforkukaupendur vegna þess að ekki er verið að semja við raforkukaupendur. Það er einfaldlega þannig eins og margoft hefur komið fram.

Síðan eru það innviðirnir, það er stjórnvaldsákvörðun. Síðan eru það litlu og meðalstóru fyrirtækin, (Forseti hringir.) það eru afleiddar fjárfestingar. Ég held því að hv. þingmaður sé að gelta upp rangt tré hérna.