140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá þingmaður sem hér stendur hefur ekki lagt í vana sinn að gelta mikið, og ekki upp við tré heldur. Við skulum bara sýna kurteisi í samskiptum í þessum þingsal.

Hv. þingmaður leggur áherslu á það að mikil fjárfestingargeta sé í greininni. Sú fjárfestingargeta tók einmitt mikinn kipp og sýndi sig einmitt í hinum nýafstöðnu viðskiptum Samherja og Brims fyrir stuttu. Það er því ekki rétt sem þingmaðurinn segir, að ekkert sé verið að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Það voru stærstu viðskipti sem við höfum séð um langt árabil sem þá áttu sér þar stað. Þess vegna er það líka mjög athyglisvert í ljósi hinnar miklu fjárfestingargetu að það skuli engu mega breyta og ekki hrófla við kerfinu. Getan, arðurinn og hagnaðurinn, í greininni er óumdeild eins og sakir standa. (Forseti hringir.) Því miður eigum við þess ekki kost sökum tímaskorts að takast betur á um þetta en ég á eftir að fara í ræðu og mun þá ræða þessi mál í betra næði.