140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:41]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki jafnánægð með núverandi lífeyrissjóðakerfi vegna þess að að mínu mati er það orðið of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf. Of mikil áhersla hefur verið lögð á að byggja það hratt upp þannig að það eru ákveðnar kynslóðir sem bera óeðlilega þunga byrði af lífeyri, sem sagt sínum lífeyri og svo lífeyri þeirra sem ekki söfnuðu upp lífeyrisréttindum. Við sjáum afleiðingar þessa í mjög hárri raunávöxtunarkröfu sjóðanna sem heimili landsins standa ekki undir. Auk þess hefur verið nauðsynlegt að setja verðtryggingu til þess að tryggja lífeyrissjóðunum þessa raunávöxtun. Þessi uppbygging lífeyrissjóðakerfisins er ein ástæða þess að íslensk heimili eru í miklum skuldavanda (Forseti hringir.) í dag. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig á að leysa vanda langflestra heimila í dag sem eru að (Forseti hringir.) gefast upp á skuldabyrðinni?