140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi kallað þetta kosningaplagg þó að það geti svo sem verið jafngott nafn og hvað annað. Ég sagði að þrátt fyrir ýmsa ágæta viðleitni í þessum tillögum svipti þær trúverðugleika algerlega óraunsæjar hugmyndir í skattamálum að Sjálfstæðisflokkurinn virtist ekkert hafa lært af hruninu í þeim efnum, það græfi undan trúverðugleika allra tillagnanna. Hér var ráðist í innstæðulausar skattalækkanir á kjörtímabilinu 2003–2007 sem varð að draga til baka til að ríkisfjármálin væru sjálfbær. Þetta vita allir.

Það er sjálfsagt að fara yfir í efnahags- og viðskiptanefnd, og ég skal sjá til þess að það verði gert, þau gögn sem hér að baki búa. Auðvitað er rétt að með því að auka atvinnu og auka fjárfestingu getum við til langframa aukið tekjur ríkissjóðs. Stundum er hægt að lækka skatta og hafa af því meiri tekjur, en að falla frá tugmilljarðatekjuöflunaraðgerðum í einu vetfangi upp á það að vonir um vöxt einhvern tímann í framtíðinni muni bæta upp tekjutapið er einfaldlega óraunsætt og ábyrgðarlaust. Þannig virkar heimurinn bara ekki. Vonandi getum við aukið fjárfestingu og atvinnustig þannig að hér styrkist skattagrunnurinn og það megi létta aftur þessar álögur, en það er ekki unnt að gera fyrr en það er í hendi því að trúverðugleiki endurreisnar íslenska efnahagslífsins hvílir á því að menn sjái að Íslendingar hafi haft pólitískt þrek, þor og kjark til að taka erfiðar ákvarðanir um að auka tekjur ríkissjóðs, sársaukafullar ákvarðanir um niðurskurð. Það að ætla að falla frá þeim aðgerðum er í raun og veru bara að renna á rassinn (Forseti hringir.) í endurreisninni.