140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil blanda mér aðeins í umræðuna um tillögur Sjálfstæðisflokksins um efnahagsaðgerðir. Það eru tillögur í allmörgum liðum og þær eru misgóður lestur eins og gefur að skilja. Eitt og annað er í þessum tillögum sem ástæða er til að skoða betur. Margt er ágætlega hugsað en annað miður.

Ég get til dæmis tekið undir hugmyndir eins og þær að leitað verði leiða til að auðvelda fyrstu fasteignakaup, að grundvöllur vaxta- og húsaleigubóta verði styrktur í þágu þeirra fjölskyldna sem búa við bágust kjörin, að tollar, vörugjöld og aðflutningsgjöld af nauðsynjavörum verði endurskoðuð með það að markmiði að lækka vöruverð og örva verslun í landinu, að tekið verði sérstakt tillit til bænda vegna þess vanda sem felst í misræmi á milli eignarstöðu og afkomu, og kom í ljós í skýrslu eftirlitsnefndarinnar til efnahags- og viðskiptaráðuneytis nú á dögunum. Ég get tekið undir hugmyndir um að virðisaukaskattur á barnaföt og nauðsynjavörur sem tengjast barnauppeldi verði færður í neðra skattþrep og að ríkið endurgreiði fyrirtækjum ígildi tryggingagjalds í tvö ár fyrir hvert starf sem þau ráða varanlega í af atvinnuleysisskrá. Það eru ágætar hugmyndir.

Ég skil það líka vel að tillöguflytjendur skuli í greinargerð sinni gera að umtalsefni aðgerðir í þágu heimilanna vegna skuldastöðu þeirra, enda er þeim flokki málið skylt því að miklu veldur sá er upphafinu veldur og er ég þá að hugsa um hrunið.

Ég kem hér upp fyrst og fremst til að ræða tvennt í þessum tillögum sem mér finnst ekki alveg nægilega úthugsað. Það er annars vegar sú krafa um að fallið verði frá þeim hugmyndum sem birtust í frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða og þess í stað verði staðið við þá sátt sem náðist haustið 2010, eins og það er orðað, og fól í sér að gerðir yrðu nýtingarsamningar við útgerðir til lengri tíma, eins og segir hér. Það langar mig að ræða aðeins og eins þá kröfu sem birtist í tillögunum að fallið verði frá öllum skattahækkunum sem ríkisstjórnin hafi lagt á síðan 2009, þær verði dregnar til baka.

Fyrst aðeins um sjávarútvegsmálin. Hér er gerð sú krafa að fallið verði frá þeim hugmyndum sem birtast í frumvarpi til laga um breytingar á stjórn fiskveiða og gerð krafa um að farin verði hin svokallaða samningsleið sem feli í sér nýtingarsamninga við útgerðirnar til lengri tíma og þannig verði óvissu eytt í sjávarútveginum.

Sú samningsleið sem vísað er til er afrakstur af vinnu sem átti sér stað og stóð í marga mánuði í svokallaðri sátta- eða viðræðunefnd í aðdraganda þess að það frumvarp sem gert er að umtalsefni í tillögum sjálfstæðismanna að breytingu á stjórn fiskveiða var lagt fram. Nefndin starfaði mánuðum og missirum saman og komst síðan að niðurstöðu.

Ef við skoðum þá niðurstöðu sem nefndin komst að voru það aðallega fjögur atriði: Í fyrsta lagi að ekki yrði litið á aflaheimildir sem eign útgerðarmanna heldur sem tímabundinn nýtingarrétt. Í öðru lagi að eignarréttur ríkisins á aflaheimildum væri skýr og ráðstöfun aflaheimilda skyldi því vera á hendi ríkisins. Í þriðja lagi að gerðir skyldu tímabundnir nýtingarsamningar um afnot aflaheimilda gegn gjaldi og á forsendum skýrra skilmála um réttindi og skyldur beggja aðila. Í fjórða lagi að auk nýtingarsamninga skyldi aflaheimildum skipt í svokallaða potta.

Þetta eru þau atriði sem umrætt frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðistjórninni felur í sér. Þau er útgangspunkturinn sem unnið er út frá. Grundvöllurinn liggur algjörlega fyrir og það er alveg ljóst að hann er til staðar í frumvarpinu.

Okkur getur greint á um útfærsluna. Sjálf hef ég sett fram gagnrýni á útfærsluna sem valin er í umræddu frumvarpi en grunnhugsunin er algjörlega í samræmi við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar við niðurstöðu sáttanefndarinnar svokölluðu. Er vert að minna á það atriði og halda því til haga vegna þess að menn tala hér eins og þeir viti í raun ekki hvað sú samningsleið fól í sér. Kerfið má hins vegar einfalda mikið. Hugmyndirnar og frumvarpið má laga, kerfið má einfalda verulega og mér finnst ástæða til þess að það verði gert. Mér finnst ástæða til að pottunum verði fækkað, leigupotturinn stækkaður að miklum mun, að tryggt verði að allur fiskur fari um innlendan markað og að strandveiðar verði gefnar frjálsar, en þetta eru allt saman útfærsluatriði. Grunnhugmyndin liggur fyrir og menn hafa komið sér saman um hana nú þegar þannig að eftirleikurinn er í raun og veru handavinna.

Hitt sem ég vildi nefna er sú krafa að allar skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur lagt á síðan 2009 verði dregnar til baka á næstu tveimur árum. Það er mjög athyglisvert innlegg í umræðuna frá Sjálfstæðisflokknum, ekki síst í ljósi þess að það sem hér eru kallaðar skattahækkanir eru raunverulega skattkerfisbreytingar sem fela það í sér að tekið var upp þrepaskipt skattkerfi. Hvers vegna skyldi það hafa verið gert? Það var auðvitað til þess að dreifa byrðum, til þess að færa byrðar af herðum þeirra sem minna hafa milli handa yfir á hin raunverulegu breiðu bök. Niðurstaðan sem er nú þegar komin í ljós er sú að 65% framteljenda, þ.e. 85 þúsund einstaklingar, greiða núna lægra hlutfall tekna í skatt en þeir gerðu árið 2008. Helmingur hjóna, þ.e. 31 þúsund hjón, greiða nú lægra hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatta, þar með talinn fjármagnstekjuskatt, en þau gerðu árið 2008, 65% hjóna greiða engan eða innan við 1% fjármagnstekjuskatt og 77% hjóna greiða nú lægri fjármagnstekjuskatt en þau hefðu gert samkvæmt 10% flötum skatti.

Það er líka komið í ljós að auðlegðarskattur er að jafnaði um 0,8% heildartekna og 75% hans eru hjá 15% tekjuhæstu hjónanna og yfir 50% hjá efstu tveimur prósentunum. Þá er skatthlutfall, að auðlegðarskatti meðtöldum, lægra á árinu 2010 í öllum tekjubilum neðri hluta tekjuskalans en það var árið 2008. Með öðrum orðum, jöfnunarmarkmið þeirra breytinga sem gerðar voru á skattkerfinu hafa náð fram að ganga og þær virka. Þessu vilja sjálfstæðismenn kasta fyrir róða. Það er þar af leiðandi mikill misskilningur, í ljósi þess sem ég hef nú sagt, að hér sé bara verið að hækka skatta, það er auðvitað ekki það sem gerst hefur.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, eru þær tillögur sem hér eru til umræðu misgóður lestur. Ýmislegt eru nýtilegar hugmyndir en því miður eru bestu punktarnir óútfærðir og almenns eðlis þó að þeir geti verið góðra gjalda verðir sumir hverjir. En hryggjarstykkið í þessum tillögum er því miður ónothæft að mínu viti, þ.e. sjálf hugmyndafræðin eins og hún birtist í varðstöðunni um óbreytta hluti þar sem augljóst óréttlæti er nú þegar, til dæmis í varðstöðunni um hagsmuni útgerðarauðvaldsins, almennri andstöðu við jöfnunaraðgerðir og félagslegar aðgerðir, og það er auðvitað það sem skiptir máli. Það er það sem kemur í ljós þegar á reynir, eins og á erfiðum tímum í efnahagslífi, þá kemur í raun og veru í ljós hver raunverulegur hugur manna er til jöfnunar byrða og hvernig maður dreifir ábyrgð, verkefnum og byrðum.

Eins og ég sagði áðan, frú forseti, finnst mér mesti ókosturinn við tillögurnar vera sá að hin raunverulega hugmyndafræði gægist þar um of fram, en það sem aftur á móti er nýtilegt og gott í tillögunum er því miður almenns eðlis og lítið útfært.