140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún gat um tvennt. Ég ætla nú ekki að fara út í sjávarútveginn, það munu væntanlega aðrir gera, en ég ætla að tala um skattkerfisbreytingarnar.

Telur hv. þingmaður það ábyrgt að horfa upp á fjölda Íslendinga streyma til útlanda, ætli þeir séu ekki tíu á dag, tíu sem fóru í dag, ungir sem aldnir? Við erum að missa þá auðlind sem ég tel vera mestu auðlind Íslands, mannauðinn. Telur hv. þingmaður ábyrgt að koma með skattkerfisbreytingar sem valda þessu? Telur hv. þingmaður ekki skynsamlegra að reyna að stækka kökuna með því að lækka skatta þannig að fólk og fyrirtæki sé hvatt til að skila hagnaði og auka umsvif sín en núverandi kyrrstöðu- og stöðnunarstefna?