140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Tölur Hagstofunnar, sem koma fram í greinargerðinni, segja að 5.900 manns hafi flutt af landi brott umfram þá sem fluttu hingað. Það finnst mér vera mikið áhyggjuefni. Það getur vel verið að hv. þingmanni sé alveg sama, en mér er ekki sama.

Þá er spurningin með fjárfestinguna. Fjárfesting er í algjöru lágmarki og ég tel það ábyrgðarhluta, frú forseti, að fylgja stefnu sem veldur þvílíkri þurrð á fjárfestingu á Íslandi að það veldur atvinnuleysi og fátækt. Það getur vel verið að það sé markmiðið hjá einhverjum að fólk sé fátækt því að það vill nefnilega svo til eins og skattkerfið er uppbyggt að tekjulágt fólk borgar lága skatta. Ef margir lækka í tekjum lækkar hlutfall þeirra sem borga hátt hlutfall af tekjum í skatta.