140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að það sé alveg sama hversu marga við spyrjum. Mér finnst það skipta svolitlu máli hverja við spyrjum, mér finnst skipta miklu máli þegar ég rek það hérna að útvegsmenn, sjómenn, fiskverkendur og ASÍ, allir sem komu að þessu máli, ljúka upp einum munni um það að þetta frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi ekki verið í samræmi við það sem þessir aðilar skrifuðu undir. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður segir að hér sé verið að feta einhverja samningsleið. Því fer víðs fjarri, sú útfærsla sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram var ekki í samræmi við þær hugmyndir sem voru skrifaðar niður á blað varðandi samningsleiðina, ekki í samræmi við það plagg sem lá þar til grundvallar — þar er ég að vísa til athugana Karls Axelssonar og Lúðvíks Bergvinssonar. Það er alveg ljóst mál að þetta frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var í besta falli útúrsnúningur á tillögum endurskoðunarnefndarinnar. (ÓÞ: Förum þá fyrningarleiðina. Leysum málið.)