140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf sem flutt er af þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Fyrsti flutningsmaður var hv. 2. þm. Suðvest., Bjarni Benediktsson, hér fyrr í dag.

Það er ýmislegt í þessum tillögum sem örugglega gleður hægri menn af því að hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, hv. 7. þm. Norðvest., Ólínu Þorvarðardóttur, líkaði ekki hugmyndafræðin sem glitti í í þessum tillögum. En það hlýtur að gefa augaleið að þeir sem eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hugmyndafræði sem er allólík þeim sem hallast til vinstri. Þess vegna gefur það augaleið að hugmyndafræði að baki tillögum sjálfstæðismanna hljóta að vera í takt við hugmyndafræði þess flokks sem við erum þingmenn fyrir. Það kann að vera að það þyki vinstri mönnum slæmt, það verður einfaldlega svo að vera. En að sama skapi þykir okkur hægri mönnum og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins afleitar ýmsar tillögur sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt hér fram, hvort heldur er til að hressa við atvinnulífið eða hressa við lánamál heimilanna. Fleira mætti tiltaka. Það er hugmyndafræðilegur ágreiningur á milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna. Það gefur augaleið.

Varðstaða mín er um eina setningu, að verðmætasköpun er undirstaða velferðar. Þá varðstöðu mun ég standa hvar sem er og hvenær sem er, en verðmætasköpun á sér ekki stað í nokkrum mæli í stjórn núverandi ríkisstjórnar. Það er einfaldlega þannig, að mínu mati. Þeir tala sjálfir eins og að hér sé allt á fleygiferð í átt til betri vegar. Fæstir af þeim sem ég tala við, og eru það jafnt vinstri menn sem hægri menn, finna þetta mikla flug sem ríkisstjórnin gefur sér í þeim málum.

Hér eru lagðar til nokkrar tillögur í tengslum við fjármál heimilanna og lánamál heimilanna. Það vita allir, það þarf ekkert að tíunda það í hverri ræðu, að hér varð forsendubrestur í hagkerfinu. Það urðu allir varir við hann. Við sjálfstæðismenn reynum í þessum tillögum okkar að benda á atriði, benda á leiðir sem gætu komið heimilunum í landinu til góða. Þau eru tíunduð hér í æðimörgum liðum og þau taka meðal annars á því að fólk geti gengið frá eigum sínum sé skuldastaðan með þeim hætti án þess að gjaldþrot fylgi fólki um ókomna tíð.

Það er líka í þessu rætt um að endurskoða verði reglur um endurreikning ólöglegra gengislána. Það er líka talað hér um að stimpilgjöld verði afnumin í þeim tilgangi að auka samkeppni. Það kann að vera að einhverjir séu ósáttir við það en þá verður svo að vera. Hins vegar er grundvallartónn í þessum tillögum sjálfstæðismanna að það þarf að draga úr atvinnuleysi, það þarf að efla hér atvinnulífið til að auka ráðstöfunartekjur fólks, til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna atvinnuleysistryggingabóta og auka tekjur hans í staðinn með auknum ráðstöfunartekjum fólks. Þannig er grundvallarmunur á vinstri mönnum og hægri mönnum þegar kemur að því að leita leiða sem væru til hagsbóta fyrir fólk.

Við segjum líka hér að skatta, jafnt beina sem óbeina, eigi að draga til baka. Það segir enginn að það eigi að gerast á morgun, en það á að gerast á einhverjum tíma. Og það er algjörlega ljóst, frú forseti, að það verður ekki afskrifað með einu pennastriki einn, tveir og sjö. Þannig er það ekki. Hins vegar erum við þeirrar skoðunar og höfum verið þeirrar skoðunar, hvort sem vinstri menn segja að það hafi ekki verið innstæða fyrir lækkun skatta á tímabilinu 2003 í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Það var innstæða fyrir lækkun skatta en menn hefðu kannski ekki átt að þenja ríkisbúskapinn út á sama tíma eins og gert var. (Gripið fram í: Sleppa …?) Það voru kannski mistök að einhverju leyti.

Atvinnulífið — hvort heldur er lítil eða meðalstór fyrirtæki eða sjávarútvegurinn sem núverandi ríkisstjórn vill hleypa í uppnám og talar um það hér í einu og öðru þrátt fyrir að flestallir sem koma að þeim atvinnuvegi, eins og samtök sjómanna, samtök smábátaeigenda, samtök atvinnurekenda, samtök verkalýðsfélaga eins og innan ASÍ, mæli gegn því að farið verði í þær aðgerðir eins og málin standa í dag, samt á að keyra í þetta verkefni að fullu.

Það þarf ekki, eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan, að tala við fólk. Það er merkilegt að ætla að vera í pólitík og ekki tala við fólk og kannski heldur ekki, sem er hálfu verra, að hlusta á fólk. Ég segi einfaldlega, virðulegur forseti, að slíkt fólk á ekkert heima í pólitík. Það eru litlar sem engar fjárfestingar, það eru jú einhverjar fjárfestingar í þessu landi, þakka skyldi ég, hrunið varð hér í október 2008, núna er nóvember 2011. Ég ætla rétt að vona að mönnum hafi áunnist eitthvað í verkefninu að bæta hér þá stöðu sem varð. En fjárfestingar eru litlar sem engar og hluti af því er andstaða ríkisstjórnarinnar við einstaka fjárfesta og að hér á landi ríkir óstöðugt skattumhverfi hvort heldur er fyrir Íslendinga eða erlenda aðila og menn fjárfesta ekki, menn koma ekki inn með peningana sína ef þeir eiga von á því eftir mánuð eða þrjá mánuði að hér verði settir á nýir skattar eins og hefur tíðkast undanfarið.

Það er annað, frú forseti, sem er verulega umhugsunarvert fyrir okkur og atvinnulíf á Íslandi, þ.e. öll þau fyrirtæki sem nú eru í eigu fjármálastofnana og lífeyrissjóða. Fyrirtækin sem eru í samkeppni við einkafyrirtækin og að því er virðist kemur ekki nægur þrýstingur frá hæstv. ríkisstjórn til fjármálafyrirtækjanna um að þessu verði að breyta og færa verði þessi fyrirtæki til fólksins í landinu. Núverandi ríkisstjórn, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, kæfir frumkvæði fólks með hugmyndafræði sinni.

Menn töluðu hér um áðan að opinber afskipti væru ekki meiri nú en áður. Opinberi geirinn óx, ég viðurkenni það fúslega, en opinber afskipti í dag af hverjum og einum, hvort heldur er hinn venjulegi launamaður eða fyrirtæki, eru vaxandi. Og það er líka ljóst að hið opinbera kerfi eykur ekki verðmætasköpun í landinu, hefur aldrei gert og mun ekki gera.

Tillögur okkar sjálfstæðismanna bera, eins og ég sagði í upphafi, að sjálfsögðu hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins vitni, gilda hans. Þakka skyldi ég.

Frú forseti. Við leggjum hér fram í þriðja sinn efnahagstillögur okkar. Ég vænti þess að þegar þær koma til kasta efnahags- og viðskiptanefndar séu í þeim þættir sem þeirri nefnd þyki vert að skoða, þyki vert að velta upp og velta fyrir sér hvort ekki mætti í þeirri uppbyggingu sem við erum og ættum að vera í taka tillögur til skoðunar og taka þær með inn í þá vegferð sem við erum á og verðum á til næstu ára, í það minnsta nokkurra og æðimargra, með fullri virðingu fyrir hæstv. ríkisstjórn, ef hún situr mun lengur en þetta kjörtímabil. En þá vona ég að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki til skoðunar það sem við sjálfstæðismenn höfum hér fram að færa. Það er margt hér sem er þess virði að menn skoði frekar.