140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í efnahagstillögum okkar sjálfstæðismanna er tekið heildstætt á þeim vanda sem íslenskt samfélag býr við í dag. Við stöndum í stríði, hér er kreppa sem hefur ílengst allt of mikið, hér hefur ekki verið gripið til neinna ráðstafana, hér hafa ekki tækifærin verið nýtt, þau hafa runnið fram hjá okkur að einhverju leyti.

Í grundvallaratriðum er stefna okkar allt önnur en þeirrar vinstri stjórnar sem ræður ríkjum núna í þessu landi, eðlilega. Við höfum aðra lífssýn, sjálfstæðismenn, en vinstri flokkarnir. Í stað skattpíningarstefnu sem við verðum vitni að, sem er í raun mjög eðlileg ráðstöfun vinstri stjórnar við þessar aðstæður sem er ekki samstarfshæfari en raun ber vitni, þeirrar aðgerðaleysisstefnu, þeirrar atvinnuleysisstefnu sem stjórnvöld reka, verður blásið til sóknar á öllum vettvangi; í atvinnulífi, í aðgerðum til handa skuldugum heimilum til að koma fólki til verka sem er grundvöllurinn að því að við getum náð vopnum okkar sem þjóð, til að við getum bætt lífskjör okkar og aukið kaupmátt í landinu.

Segja má að í hnotskurn liggi þetta í því að við ætlum að stuðla að atvinnu og verðmætasköpun í stað kynningarfunda Vinnumálastofnunar í umboði ríkisstjórnarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur með erlendum vinnumiðlunum þar sem fólki eru send þau skilaboð ríkisstjórnarinnar að það eigi að koma sér úr landi af því að hér sé ekki um nein tækifæri að ræða í náinni framtíð, að þannig eigi að vinna á atvinnuleysinu í þessu landi. Við ætlum að segja fólki að við Íslendingar getum staðið á eigin fótum, að við höfum tækifæri til að byggja upp bjarta framtíð, það sé ljós við enda ganganna og að það sé ekki ljós vinstri hraðlestarinnar til glötunar sem komi æðandi á móti þeim heldur sé það ljós til betra samfélags, til betra lífs og til nýtingar auðlinda okkar í okkar ríka landi.

Við þær aðstæður sem eru nú í samfélagi okkar er tekjuöflun forsenda þess að við náum okkur af stað. Aukin skattpíning er ekki rétta leiðin gagnvart þverrandi ráðstöfunartekjum heimila og fyrirtækja. Við þær aðstæður þarf að segja atvinnuleysinu stríð á hendur með verðmætasköpun og sköpun atvinnutækifæra.

Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að stefna þessarar vinstri stjórnar fjalli um það að auka bara skatta. Þessi ríkisstjórn getur ekki komið sér saman um aðgerðir í atvinnumálum. Þessi ríkisstjórn getur ekki náð og stuðlað að sátt í sjávarútvegi, hún getur ekki komið sér saman um næstu skref í orkufrekum iðnaði. Til þess eru skoðanir of skiptar á milli ríkisstjórnarflokkanna og innan þeirra þannig að leið þeirra til að bregðast við vandanum er að auka skatta. Það er það eina sem þau geta í raun og veru gert. Þær nauðsynlegu ákvarðanir sem taka þarf nær þessi ríkisstjórn ekki að taka. Hún er of veikburða og til þess er ágreiningurinn of mikill.

Í efnahagstillögum okkar kennir margra grasa. Við nálgumst vanda heimilanna á breiðum vettvangi. Við boðum til aðgerða í þágu þeirra heimila sem eru í vanda stödd. Við leggjum fram lausnir í 13 meginliðum í þeim efnum, lausnir á skuldamálum sem eru miklu einfaldari og skilvirkari og ganga lengra en það sem þessi ríkisstjórn hefur boðað. Við bjóðum hraðara uppgjör fjármálastofnana gagnvart skuldugum heimilum. Við boðum aukningu kaupmáttar með aukinni atvinnu- og verðmætasköpun og við boðum lækkun skatta.

Samkvæmt úttekt Seðlabankans eru það barnafjölskyldur, ungar fjölskyldur í þessu landi sem eru í mestum vanda, enda sýnir það sig í tölum brottfluttra að það eru þær fjölskyldur sem flýja land af því að þær ná ekki endum saman. Samfélagið er orðið þeim óvinveitt. Þess vegna leggjum við til að allar barnavörur, allar vörur sem þarf til að uppeldis barna beri lægra virðisaukaskattsþrep eða 7%. Það eru aðgerðir sem hægt er að grípa til strax og munu strax skila sér í buddu þessara fjölskyldna.

Það sama á við um lausnir á vandamálum fyrirtækja. Þar leggjum við til að hraðað verði uppgjöri og endurreisn fjölmargra lítilla og meðalstórra fyrirtækja í þessu landi. Beina brautin svokallaða sem lögð var fram fyrir nokkuð löngu síðan hefur ekki skilað árangri. Í upphafi var talað um að hún mundi ná til allt að sjö þúsund fyrirtækja í landinu. Reyndin er sú að það eru kannski á annað þúsund fyrirtækja. Það gengur allt of hægt og nær ekki nógu langt. Þarna verðum við að klára hlutina samhliða þeirri atvinnuuppbyggingu sem hér verður sem ég mun koma að á eftir, enda verður mikil sprengja hjá þessum fyrirtækjum og afkoma þeirra mun batna. Þess vegna er mikilvægt að laga rekstrargrundvöll þeirra strax. Þar verða flest störf til á Íslandi, í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

En til að hægt sé að grípa til aðgerða bæði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og ekki síður fyrir fjölskyldurnar í þessu landi og mynda hvata til að fólk vilji búa áfram á Íslandi og starfa áfram í okkar góða samfélagi verða undirstöðurnar að vera í lagi. Við erum með ferðaþjónustu, hugverkaiðnað og nýsköpun sem skipta miklu máli og hafa vaxandi hlutverki að gegna í verðmætasköpun í efnahag okkar. En þær greinar munu ekki ná fótfestu, þær munu ekki ná vopnum sínum, þær munu ekki ná að blómstra eins og þær geta nema undirstöður atvinnulífsins séu í lagi og þar erum við fyrst og frest að tala um sjávarútveg og orkufrekan iðnað. Það þýðir ekkert að vinna á borðplötu þar sem lappirnar eru fúnar og eins og ég sagði áðan leggjum við það til að atvinnuleysinu verði sagt stríð á hendur.

Við viljum fara í uppbyggingu á innviðunum. Við leggjum til að á næstu tveimur árum verði farið í framkvæmdir í vegagerð upp á 45 milljarða kr. Verkefnin eru tilbúin, þau voru komin í útboð, í mörgum þeirra voru framkvæmdir við það að hefjast þegar hrunið varð þannig að við eigum fjölmörg verkefni stór og smá um allt land þar sem vinnufúsar hendur geta byrjað í þeim geira sem hvað verst hefur farið út úr hruninu. Það eru 45 milljarða útgjöld hjá ríkissjóði en í raun verða það ekki nema 12 milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð vegna þeirra skatttekna sem hljótast af svona framkvæmdum og annars konar framkvæmdum á næstu tveimur árum. Þar getur ríkissjóður komið myndarlega að hlutum með mjög hröðum hætti.

Það er áætlað að fjárfestingarþörf í sjávarútvegi sé um það bil 17 milljarðar að jafnaði á ári. Fjárfestingin hefur verið í kringum 4,5 milljarðar á ári síðustu tvö, þrjú ár. Fjárfestingarþörf í sjávarútvegi er því orðin mikil og við áætlum að á næstu tveimur árum, ef tekst að koma á sátt í sjávarútvegi á grundvelli niðurstöðu sáttanefndarinnar, muni það leiða af sér 52 milljarða fjárfestingu á næstu tveimur árum. Margir sérfræðingar á þessu sviði, þeir sem best þekkja til, telja að það sé vanáætlað hjá okkur, í raun megi reikna með að það liggi nær 60 milljörðum, en við förum varlega í hlutina og reiknum þarna með 52 milljörðum. Það jafnast á við tvær virkjanir sem nú eru í smíðum sem kosta um 25 milljarða. Það er fjárfesting sem jafnast á við tvær virkjanir, mikilvæg fjárfesting í landi, í vinnsluhúsnæði og slíkum hlutum.

Uppbygging í orkufrekum iðnaði er auðvitað lykillinn að því að við tökum ákvörðun um það þannig að við höfum þá viðspyrnu sem það getur gefið okkur. Hún er gríðarleg. Í skýrslu Landsvirkjunar sem gefin var út í júní er reiknað með framkvæmdum í orkufrekum iðnaði, þ.e. í virkjanaframkvæmdum og iðnaðaruppbyggingu í tengslum við það til ársins 2020 upp á tæpa þúsund milljarða. Það er mjög vel rökstutt í skýrslu Landsvirkjunar. Þá erum við búin að virkja um það bil 14 teravattstundir á þessum tíma eða fram til ársins 2025. Það eru ásættanlegir virkjunarkostir sem rúmast innan núverandi rammaáætlunar í nýtingarflokki þar.

Arðsemi Landsvirkjunar eftir þessar framkvæmdir er alveg gríðarleg og Landsvirkjun áætlar að eftir árið 2025 verði arð- og skattgreiðslur til ríkisins um og yfir 100 milljarðar kr. á ári. Það jafngildir framlagi norska olíusjóðsins til norska ríkisins.

Virðulegi forseti. Það eru ákvarðanir sem taka þarf í landinu. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn er ekki þess bær að geta farið þá leið sem við boðum hér, sjálfstæðismenn, vegna þess að um það er of mikil ágreiningur innan stjórnarinnar þó að (Forseti hringir.) vilji sé til þess hjá einstökum þingmönnum.