140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum í þriðja sinn tillögur Sjálfstæðisflokksins og þá á ég við að þetta er í þriðja sinn sem slíkar tillögur eru lagðar fram.

Ég man ekki til þess að slíkt hafi gerst áður á Alþingi að stjórnarandstaðan hafi flutt eins ítarlegar tillögur til tekjuöflunar og hér eru lagðar til og voru til einnig lagðar á síðasta ári. Það eru í rauninni ný ríkisfjármál sem Sjálfstæðisflokkurinn er að leggja fram.

Ríkisstjórnin og hv. stjórnarflokkar telja að hægt sé að skatta sig út úr kreppu. Ég hef ekki trú á því, ég trúi því ekki. Ég held þvert á móti að það sé það vitlausasta sem menn geri og það hefur sýnt sig núna að það er ekki hægt. Afleiðingin af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að skatta sig út úr kreppunni, skatta sig og skera niður út úr kreppunni, hefur sýnt sig í því að það er mikill brottflutningur fólks frá Íslandi, 5.900 manns fluttu frá Íslandi á árunum 2008, 2009 og 2010, á þrem árum. Það er um fimm til sex á dag og þar af eru 3.600 Íslendingar, þ.e. þrír til fjórir á dag sem fluttu út, og menn eru enn að flytja út vegna þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að reyna að skatta sig út úr kreppunni. Skattahækkanir og skattbreytingar hæstv. ríkisstjórnar eru óábyrgar. Það er óábyrgt að flæma hina einu sönnu auðlind þjóðarinnar úr landi, því að fólkið sem byggir þetta land er auðlind landsins. Allar hinar auðlindirnar eru einskis virði. Sjávarútvegurinn er einskis virði ef þar er ekki mjög kraftmikið, duglegt og menntað fólk. Það gleymist nefnilega að í sjávarútvegi er mikil menntun og mikil þekking, bæði í markaðssetningu og í veiðunum og ég tala nú ekki um í allri vinnslunni. Við erum í rauninni að flytja út þekkingu og mannafla sem er auðlind þjóðarinnar þannig að þessar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru óábyrgar, þær eru óforsvaranlegar.

Einnig er niðurskurðurinn óábyrgur og óforsvaranlegur og þykir sennilega mörgum skrýtið að heyra það úr mínum munni, en hann er óábyrgur þegar fólk hefur að engu að hverfa. Það er alveg sjálfsagt að skera niður ríkisútgjöld þegar þau hafa vaxið eins mikið og þau gerðu í tíð Sjálfstæðisflokksins og það verður að viðurkennast, en það er óskynsamlegt að skera niður og segja upp fólki þegar enga vinnu er að fá annars staðar. Fólk fer í rauninni af launaskrá hjá ríkinu yfir á atvinnuleysisbætur og borgar miklu lægri skatta til ríkisins þannig að ríkið tapar að meðaltali um 4 millj. á hverju starfi sem hverfur en það á líka við í atvinnulífinu. Ríkið er því að tapa mjög miklu á bæði brottflutningi og niðurskurðinum.

Síðan má segja að enn einn farvegur fyrir fólk sem missir vinnuna sé sá að fara í nám. Það hefur aukist mjög mikið og er í sjálfu sér ágætt en það er líka dulið atvinnuleysi. Svo er dulið atvinnuleysi fólgið í því að mjög margir starfa fyrir íslensk fyrirtæki í útlöndum. Það er töluverður hópur. Þeir eru hvergi taldir með, þeir eru ekki taldir atvinnulausir á Íslandi, þeir eru ekki taldir brottfluttir og þeir eru ekki í námi. Þannig að við þær tölur sem við vorum með, 4–6 á dag, má bæta sennilega einum eða tveimur sem hafa horfið úr virkri vinnu. Þetta eru því óábyrgar skattahækkanir og óábyrgur niðurskurður.

Staða ríkissjóðs myndast af þrennu. Það er hægt að auka tekjurnar ef við ætlum að laga stöðu ríkissjóðs, hækka skatta, það er hægt að minnka gjöldin en það er líka hægt að selja eignir, frú forseti, og það hefur lítið verið rætt. Þá er spurningin hvaða eignir er hægt að selja í núverandi stöðu og ég kem inn á það á eftir. En það er líka hægt að stækka kökuna og út á það ganga tillögur Sjálfstæðisflokksins, að stækka kökuna. Til þess ætlum við að nota nokkrar eignir sem ríkið á. Til dæmis á ríkið eign í séreignarsjóðunum sem við viljum nota, það eru um 70 milljarðar. Þrátt fyrir allar útborganir á ríkið enn 70 milljarða í séreignarsjóðunum. Þessa eign má nota, þetta er einskiptisaðgerð. Það má nota þetta til að koma atvinnulífinu í gang og það er hægt að gera þannig að hvorki þeir sem eru í séreignarsjóðunum, sjóðfélagarnir, né sjóðirnir sjálfir verði mikið varir við það, með því að sjóðirnir gæfu út skuldabréf sem ríkið tæki og seldi. Þetta er leið sem við bendum á til að setja atvinnulífið í gang, gefa því start. Síðan er spurningin um að auka kvóta um 30 þús. tonn vegna þess að vinna núna er meira virði en vinna eftir 10 ár þegar allt hefur verið í 10 ára kyrrstöðu og stöðnun. Það er svo mikilvægt að koma öllu í gang í dag og til fórnandi að sjá kannski eitthvað minni fiskafla eftir 10 ár frekar en afleiðingar af miklum brottflutningi og mikilli kyrrstöðu.

En það sem er kannski mest um vert og við sjálfstæðismenn höfum lagt mikla áherslu á er að auka fjárfestingu. Það þarf að auka fjárfestingu með öllum ráðum vegna þess að fjárfesting er eina leiðin til að skapa meiri atvinnu í þjóðfélaginu, það er eina leiðin til að minnka atvinnuleysið og gefa því fólki von sem er flutt til útlanda, von til þess að það komi aftur til Íslands. Það er mjög mikilvægt. En hvernig aukum við fjárfestingar? Jú, einfaldasta leiðin er að auka opinberar fjárfestingar og það leggjum við til, virkjanir og annað slíkt, það er einfaldasta leiðin. Síðan, eins og ég gat um áðan, þarf að auka kvóta, það eykur líka bæði atvinnu og fjárfestingar, en svo er spurningin um að örva einkafjárfestingu og þar finnst mér menn ekki hafa tekið á vandanum sem skapaðist í hruninu.

Það kom nefnilega í ljós í hruninu að það er ákveðin veila í hlutabréfaforminu sem gerði það að verkum að litlir hluthafar voru hlunnfarnir í stórum stíl, 60 þúsund heimili töpuðu hlutabréfunum sem fólki hafði verið ráðlagt eða það lokkað eða hvað menn kalla það til að kaupa. Það var vegna þess að fyrirtækin voru holuð að innan, ársreikningar sýndu ekki rétta mynd af stöðu fyrirtækjanna, það getur ekki verið því að bankarnir voru með mjög góða stöðu samkvæmt ársreikningum um mitt ár 2008, rétt fyrir hrun. Þessu þarf að breyta, það þarf að auka traustið og koma því aftur á. Ef það er ekki gert gerist ekki neitt. Enn sem komið er hefur hvorki viðskiptanefnd né viðskiptaráðuneytið gert neitt í því að auka þetta traust, að breyta stöðunni þannig að fólk geti treyst því að fyrirtæki séu ekki holuð að innan eins og gerðist. Ég hef flutt frumvarp í tvígang eða þrígang um gagnsæ hlutafélög en það hefur ekki fengið mikla umræðu.

Svo er spurning um að verðlauna sparnað og ráðdeild. Nú eru innstæður með neikvæðri ávöxtun og það virðist öllum þykja allt í lagi, allt í lagi að hafa neikvæða ávöxtun og þetta er meira að segja skattað með 20%, þessir litlu nafnvextir sem eru í reynd neikvæðir raunvextir. Ég vil snúa þessu blaði algerlega við. Ég vil að menn fari að verðlauna sparnað og ráðdeild, ég vil að fólk sé hvatt til sparnaðar með skattahvötum og hvatt til fjárfestingar í hlutabréfum aftur með því að auka traust og með skattaívilnun jafnvel, ef á þarf að halda. En það sem menn þurfa fyrst og fremst að huga að, frú forseti, er að stækka kökuna. Það er það sem við þurfum að horfa fyrst og fremst á. Ef okkur tekst að stækka kökuna í eitt eða tvö ár gefur það ríkissjóði svo miklar tekjur að hann þarf ekki að fara eins bratt í skattahækkanir og þá er hægt að lækka skattana eins og við reyndar leggjum til að gert sé strax. Við trúum því að það sé betra að fólk hafi hvata til að skila góðu verki en að það sé í rauninni latt til þess að skila góðu verki með því að skattleggja allan arð og allan hagnað af því þegar menn leggja mikið á sig, en allt skattkerfið gengur núna út á það að minnka hvata fólks til að vinna og hafa meiri tekjur.