140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Það er virðingarvert og þakkarvert þegar stjórnmálaflokkar leggja fram heilsteyptar tillögur á sviði efnahagsmála og ber ávallt að fagna því.

Í þessum pakka eru, eins og margir ræðumenn hafa rakið í dag, ýmsar góðar tillögur og ekki dreg ég úr því og margt sem hægt er að taka undir. Á þessum tillögupakka er þó grundvallarveikleiki og hann er sá að menn ganga út frá því að leiðin til að takast á við erfiðan efnahagsvanda felist í því að grafa undan stöðugleika í ríkisfjármálum. Við erum nýbúin að fagna því að hafa lokið samstarfsverkefni okkar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og af því tilefni héldum við í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stóra ráðstefnu í Hörpu. Samdóma álit allra sem þar töluðu, þeirra erlendu sérfræðinga sem þar voru, var að þeir luku lofsorði á þann mikla árangur sem náðst hefði í að koma aga á ríkisfjármálin og verja ríkisfjármálin, verja stöðu ríkisins í þeim erfiða ólgusjó sem gengið hefur verið í gegnum.

Það er alveg ljóst að þær tillögur sem sjálfstæðismenn leggja hér fram fela í sér að grafa undan þessum stöðugleika, ógna þeim stöðugleika sem við höfum náð í ríkisfjármálum með skattalækkunum, stórfelldum skattalækkunum sem maður veltir fyrir sér hvar hinar efnislegu forsendur eru fyrir. Í reynd er þetta hagstjórnarstefna sem felur í sér uppskrift að nýju hruni. Það er gengið fram með þeim hætti að menn vilja búa til eftirspurnarsprengingu og maður spyr sig hvernig hagkerfið muni líta út í kjölfarið ef jafnvel þessi bjartsýnu plön ganga eftir að öllu leyti.

Mörgum spurningum er ósvarað í þessum hugmyndum og stærstar eru auðvitað þær sem lúta að stórfelldum ríkisútgjöldum samhliða því að menn gefa sér að skattalækkanir hafi tafarlaus áhrif til að myndin verði það miklu betri að skattalækkanirnar valdi ekki tjóni fyrir ríkið.

Við skulum rifja það upp að þær skattalækkanir sem ráðist var í í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins upp úr 2003 sem almennt er viðurkennt í dag að voru innstæðulausar og byggðu ekki á réttri efnahagslegri greiningu, juku á hagstjórnarvandann í aðdraganda hrunsins. (Gripið fram í.) Þær skattalækkanir voru búnar að leika langtímajafnvægi í ríkisrekstrinum þannig að jafnvel árið 2006 var gert ráð fyrir halla á ríkissjóði á árinu 2008 um leið og stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan lyki. Með öðrum orðum, menn höfðu gengið það langt fram í að veikja tekjuöflunargrunn ríkissjóðs að menn þoldu ekki eitt meðalár. Menn þurftu viðvarandi stóriðjubólu til að halda uppi tekjumunstri ríkisins. Það er þess vegna sem mér þykja þær tillögur sem hér eru lagðar fram bera sorglega mikinn keim af þessari gömlu úreltu sýn.

Við búum á margan hátt við sérstök tækifæri í dag sem ættu að skapa möguleika fyrir annars konar hagvaxtarmódel, ekki hið eftirspurnardrifna skuldsetta módel sem menn virðast hér vilja endurvekja. Við horfum fram á það núna að vegna skuldahreinsunarinnar munum við vonandi fljótlega á næsta ári sjá fram á að skuldastaða fyrirtækja hafi lækkað stórlega og þau verða þá betur í stakk búin til að nýta sér þau einstæðu tækifæri sem felast í sérstaklega hagstæðu raungengi. Það er mikið sóknarfæri fyrir íslenskt atvinnulíf og skapar möguleika á sjálfbærum útflutningsdrifnum hagvexti en ekki skuldsettri eftirspurnarbólu. Ég held að það skipti máli að við leggjum traustari grunn fyrir hagvöxtinn í framtíðinni en lagður var í fortíðinni. Ég hef áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn feti um of í þessum tillögum óábyrga leið þar sem grafið er undan traustum og öguðum ríkisrekstri og höfuðáherslan sé lögð á bóluhagkerfið, að farið sé aftur í að búa til eftirspurnarbólu til að búa til stundarhagvöxt. Hvernig menn ætla að viðhalda þeim hagvexti til langframa er látið óútskýrt í þessum tillögum og sýnin um samhengi þeirrar miklu eftirspurnarsprengju sem ætlað er að efna til við vaxtastig, við atvinnustig, við gengi krónunnar þegar fram í sækir er ekki heldur ljóst.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nefna eitt atriði sem ég hef hnotið um. Það eru auðvitað hugmyndir í þessu sem margar eru allrar athygli verðar en ég fæ ekki eitt til að ganga upp. Það er hugmynd sem sjálfstæðismenn setja fram um að menn eigi að geta notið einhvers konar lyklalausnar, að geta skilað lyklum ef aðrar lausnir dugi fólki ekki eins og segir í tillögunum. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju fólk sem á val, sem getur greitt, eigi að kjósa að tapa eign þegar því býðst í dag að halda eigninni og fá niðurfærslu að 110%, sérstaklega í ljósi þess að vænta má hækkandi fasteignaverðs í framtíðinni. Ef þetta er hugsað sem leið til að losna við skuldbindingar, eins og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt, að þetta sé til að menn þurfi ekki að dragast með afleiðingar gjaldþrots í langan tíma, þá virðist þar gæta nokkurs þekkingarleysis á stöðu mála í dag. Í dag losna allir sem ekki ráða við eignir sínar, ef aðrar lausnir duga ekki eins og segir í tillögum sjálfstæðismanna, í dag losna þeir við eignir sínar í gegnum greiðsluaðlögun eða gjaldþrot sem er ekki með nema tveggja ára fyrningarfresti eftir nýjustu lagabreytingar. Fólk í tímabundnum greiðsluvanda getur haldið eignum í sértækri skuldaaðlögun eða í greiðsluaðlögun og greitt af lánum jafnvel einungis sem nemur 70% af eignum. En fólk sem fer í greiðsluaðlögun og ræður ekki við skuldbindingar sínar getur losnað undan eignum án nokkurra vandræða.

Mér finnst það hins vegar bera nokkurri örvæntingu vitni að sjálfstæðismenn skuli ganga þá leið að gefa undir fótinn með einhvers konar lyklaleið vegna þess að hún bitnar fyrst og fremst á möguleikum meðaltekjufólks og lágtekjufólks til að eignast eigið húsnæði. Mér finnst það sérkennilegt af Sjálfstæðisflokknum, sem hefur verið í fararbroddi að berja niður allar tilraunir til að koma á félagslegum húsnæðislausnum, að grafa með þessum hætti undan þeirri séreignarstefnu sem hann hefur viljað standa vörð um hingað til. Mér finnst gæta þarna mikillar ósamkvæmni. Ég skil að það séu upplausnartímar í Sjálfstæðisflokknum og ákveðið forustuleysi en ég verð að segja, af ákveðinni væntumþykju í garð Sjálfstæðisflokksins, að mér þykir nú prinsippleysið vera farið að keyra um þverbak.