140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hugga hæstv. ráðherra með því að það er ekkert forustuleysi í Sjálfstæðisflokknum. Það er lýðræði í Sjálfstæðisflokknum (Gripið fram í.) sem er ekki í öðrum flokkum þar sem menn eru sjálfkjörnir aftur og aftur. Við sjálfstæðismenn höfum alla vega mjög stóran fund sem tekur lýðræðislega ákvörðun um forustu en ekki pínulítinn fund sem klappar.

Hæstv. ráðherra sagði að tillaga Sjálfstæðisflokksins væri óábyrg leið og mundi grafa undan stöðugleika í ríkisfjármálum. Svo er einmitt ekki. Við gerum ráð fyrir því að ná 70 milljörðum út úr séreignarsparnaðinum sem dugar fyrir skattalækkunum til rúmlega eins árs, eins og hálfs árs, þannig að það ríkir ekkert ábyrgðarleysi í þeirri leið. Hann sagði líka að við ætluðum að búa til eftirspurnarsprengju og búa til nýtt hrun. Það er ekki markmiðið. Markmiðið er að komast út úr þeirri kyrrstöðu og stöðnun sem núverandi ríkisstjórn hefur keyrt (Forseti hringir.) þjóðina í og horfa til bjartari daga.