140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra talar við annað fólk en ég vegna þess að fólkið sem ég tala við er ekki fullt af bjartsýni, það er ekki fullt af trú á framtíðina. Það talar um auknar skattálögur, það talar um flækingu á skattkerfinu og um vonleysi fram undan, litla fjárfestingu og að litla sem enga atvinnu sé að fá neins staðar. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra er að tala við allt annað fólk og ég held að hann ætti að skoða það hvort hann sé að tala við rétta fólkið.

Hvað það varðar að það sé óábyrg leið að nota séreignarsjóðina upp á 70 milljarða og 40 milljarða í sveitarfélögin þá er það okkar trú að með því að stækka kökuna, með því að hvetja fólk til að vinna, spara og fjárfesta, muni það auka hagvöxt á Íslandi mikið meira en um er talað, sem er varla nóg, og þannig muni (Forseti hringir.) þjóðin komast út úr kreppunni.