140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þann 31. maí sl. kvaddi sér hljóðs hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, til að fagna því að Landsbanki Íslands hefði sýnt það frumkvæði að kynna úrræði fyrir skuldug heimili þar sem gengið var lengra en gert er ráð fyrir í þeim lögum sem við höfum sett á Alþingi. Hv. þingmaður fagnaði þessu og sagði síðan, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er full ástæða til að hvetja önnur fjármálafyrirtæki til að taka sér þetta frumkvæði til fyrirmyndar. Það stendur ekki síst upp á okkur sem sitjum í þinginu gagnvart Íbúðalánasjóði. Ríkið er aðaleigandi Landsbankans og Íbúðalánasjóður hlýtur að þurfa að bjóða sambærileg úrræði og úrlausnir fyrir skuldara hjá sér og ríkisbankinn Landsbankinn.“

Enn fremur sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ef við erum ekki í færum til að bjóða það í Íbúðalánasjóði er engin ástæða fyrir ríkisrekstri Íbúðalánasjóðs.“

Svipuð rök hafði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra uppi sem sagði í frétt Stöðvar 2 um líkt leyti, með leyfi forseta:

„Það eru lítil rök fyrir að hafa ríkisrekinn íbúðalánasjóð ef hann getur ekki staðið undir því að mæta fólki í vanda með sambærilegum hætti og fyrirtæki á markaði.“

Við ræddum þetta mál aðeins í gær, ég og hæstv. ráðherra, og þá var reyndar kominn svolítill flótti í liðið vegna þess að hann lagði mikla áherslu á að ekki væri hægt að fara í svona nema bankarnir, fjármálastofnanir, hefðu allar sammælst um þetta. Með öðrum orðum, ein bankastofnun hefði sem sagt neitunarvald í þessu máli.

Nú vil ég spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar: Hvað líður þessu máli? Hvar er málið statt? Er málið ekki til umræðu í stjórnarflokkunum? Hafa stjórnarflokkarnir í hyggju að leggja fram frumvarp sem gerir það að verkum að Íbúðalánasjóður gangi a.m.k. jafnlangt fram gagnvart skuldugum heimilum og Landsbankinn, sem er líka ríkisbanki eins og fram hefur komið, er í eigu ríkisins eins og Íbúðalánasjóður? Og er það ekki mjög sérkennilegt að það skuli vera þannig að skuldarar séu meðhöndlaðir á mismunandi hátt, þ.e. hvort þeir eru með skuldir sínar í ríkisbankanum Landsbanka eða ríkisbankanum Íbúðalánasjóði?