140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp á þessum vettvangi. Það er ljóst að félagsleg einangrun og einmanaleiki koma oft í veg fyrir að einstaklingum með langvinna geðsjúkdóma geti liðið vel og félagslíf og félagsskapur og samvistir við aðra bæta lífsgæði þessara einstaklinga verulega. Í þessu tilliti er starfsemin sem fer fram í Vin gríðarlega mikilvæg þessum einstaklingum, aðstandendum þeirra og okkur öllum og ómetanleg í vegferð þeirra til bata.

Lokun Vinjar í mars næstkomandi, eins og boðað hefur verið, er þess vegna mikið áhyggjuefni og hefur þegar valdið skjólstæðingum skýlisins miklum kvíða og öryggisleysi og óvissu. Við skulum muna að Vin kemur í staðinn fyrir stórfjölskylduna fyrir stóran hóp borgarbúa sem þangað sækir og skiptir miklu máli að komast þar í félagsskap fyrir fólk sem á erfitt með að finna sig annars staðar, eru einstæðingar, hafa veikst ungir eða hafa verið veikir í langan tíma og eiga þess vegna litla möguleika í félagslegu tilliti án aðstoðar eins og er í Vin. Þarna komu yfir 5 þúsund einstaklingar á árinu 2010, matargestir voru yfir 2 þúsund á sama ári.

Rauði krossinn hefur, eins og hér hefur komið fram, rekið Vin í tæp 20 ár en Reykjavíkurborg hefur styrkt rekstur Vinjar með því að veita ókeypis afnot af húsnæðinu og staðið einnig undir viðhaldskostnaði. Ríkið hefur hins vegar ekki komið beint að þessum rekstri frekar en að Dvöl í Kópavogi eða Laut á Akureyri. Hins vegar, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, standa nú yfir viðræður á milli velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Rauða krossins, sem hefur verið einn um Vin, og Hollvinasamtaka Vinjar, sem eru öflug samtök, og ég vona svo sannarlega að á þeim vettvangi fáist trygging fyrir því að skýlinu verði ekki skellt í lás (Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður nefndi.