140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekkert sjálfsagðara en að taka til sérstakrar umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd þau mál sem hv. þingmaður nefndi hér. Við höfum út af fyrir sig verið sammála um að betra hefði verið í almennum aðgerðum að ganga lengra í því að afskrifa af skuldum heimilanna til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og fá meira líf í fasteignamarkaðinn þó að okkur hafi greint á um hversu langt ætti að ganga í þeim efnum. Út af fyrir sig held ég að allir geti tekið undir þá frómu ósk að betra væri að ganga lengra en skemmra í því efni en vandinn er aftur sá hver á að borga fyrir það.

Ég vil hins vegar almennt gjalda varhuga við spádómum um miklar hrakfarir á jafnviðkvæmum markaði og fasteignamarkaðurinn er. Þar hefur verið nokkuð um viðskipti og verð auðvitað fallið talsvert með verðbólgu en sveiflan þó ekki verið mest í okkar heimshluta getum við sagt. Ég held að sá mikli fjöldi íbúða sem er hjá fjármálastofnununum verði þó um leið að skoðast í því ljósi hver hefur verið hin árlega þörf fyrir nýjar íbúðir inn á markaðinn og það sem muni ráða úrslitum um verðþróun þar verði hvort okkur takist að skapa hér enn fleiri störf en við höfum verið að gera að undanförnu. Það ræðst auðvitað af því hvort fólk er að flytjast héðan eða hvort fólk er að flytjast hingað til starfa hver eftirspurnin verður á þessum markaði.

Þegar menn spá 20–30% falli til viðbótar held ég að menn verði að hafa í huga raunkostnaðinn sem er við það að reisa fasteignir og að það eru auðvitað einhver mörk á því hversu langt niður fyrir þann kostnað markaðsverðið getur leitað. (Forseti hringir.) Það getur auðvitað leitt til ákveðinnar stöðnunar í viðskiptunum ef verðið lækkar frá því sem nú er.