140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vildi vekja athygli þingmanna á tveimur málum. Annars vegar þegar við innleiddum matvælalöggjöf Evrópusambandsins og breyttum dýralæknisþjónustu um allt land með þeim hætti að aðskilið var á milli eftirlits og þjónustu. Síðan er staðreyndin sú að úrlausn þessara mála við að byggja upp örugga þjónustu um allt land og tryggja að dýraeigendur fái örugga þjónustu frá dýralæknum hefur eiginlega öll verið í molum hjá Matvælastofnun og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Þetta hefur gengið allt of hægt og stór svæði á landinu eru skilin eftir í mikilli óvissu um hvort þau fái eðlilega þjónustu sem ríkið hefur þó lýst yfir að eigi að vera, þ.e. jöfn þjónusta tryggð öllum dýraeigendum í landinu. Ég tel að þetta mál sé með þeim hætti að það þurfi að skoða það enn frekar. Vaktsvæði hafa verið stækkuð þannig að dýralæknar treysta sér ekki til þess að sinna þeim og þau eru það stór að það mun taka of langan tíma að fá þjónustu við slösuð eða veik dýr. Ég mun því síðar í dag óska eftir fundi í atvinnuveganefnd um þetta mál.

Hitt málið sem ég held að þingheimur þurfi einnig að skoða og með tilliti til þess að við förum betur með fjármuni er það að við uppbyggingu Landeyjahafnar var opnuð náma uppi í Hamragarðaheiði og gerð var sú krafa að þegar því verki yrði lokið ætti að minnka veginn þangað upp og loka námunni eða ganga frá að hluta. Nú hefur náman verið notuð að verulega miklu leyti til þess að byggja upp varnargarða vegna náttúruhamfaranna sem þarna hafa verið. Vil ég hvetja þá ráðherra sem koma þar að máli, hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, til að skoða þetta mál því að það er galin meðferð á fjármunum að nota peninga til að moka upp vegi sem menn ætla síðan að nota áfram á næstu árum til að tryggja (Forseti hringir.) varnargarða, það væri nær að nota peningana í varnargarðana.