140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[15:38]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að þingheimur og allir landsmenn viti um Vestfjarðaveg og þær framkvæmdir í vegagerð sem hafa verið í uppnámi um alllangt skeið. Því var vel tekið undir það frumkvæði sem hæstv. innanríkisráðherra tók með því að boða til samráðsvettvangs þar sem saman komu þeir sem að málinu hafa komið í heilan áratug. Markmiðið var að finna leið til að leysa þann hnút sem málið hefur verið í. Krafan af hálfu hæstv. innanríkisráðherra var sú að allir viðruðu sjónarmið sín og hlustuðu á sjónarmið annarra.

Niðurstaðan af þeim vettvangi var svo ekki sé meira sagt gríðarleg vonbrigði fyrir íbúa sveitarfélaganna þriggja sem eiga allt sitt undir að þessi vegur verði lagður og ekki síður landsmenn allir því að allir hljóta að taka undir það sjónarmið að ef við höfum val um að leggja ekki vegi yfir fjöll og firnindi og illfæra hálsa þá hljótum við að velja láglendisleið. Annað væri í ósamræmi við þau markmið sem sett hafa verið fram til dæmis varðandi umferðaröryggi.

Ráðherra setti fram niðurstöðu um að endurbyggja vegi yfir tvo hálsa og jarðgöng í framtíðinni. Mér finnst, og ég hef lýst því yfir, illa farið með almannafé að eyða í vegagerð í dag og göng eins og talað var um eftir 10–15 ár. Í dag eru 50 kílómetrar af þessari leið 50 ára gamlir malarvegir. Helmingur þessa vegarkafla er í Gufudalssveitinni. Hinn hlutinn verður boðinn út um áramót eða strax eftir það ef allt gengur eftir. Því skiptir gríðarlega miklu máli að Gufudalssveitin verði tilbúin til útboðs að þremur árum liðnum.

Því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra hvort ráðuneytið, með fulltingi Vegagerðarinnar, hyggist beita sér fyrir því að koma fram með tillögu að láglendisvegi í samvinnu við umhverfisráðuneytið sem er mjög mikilvægt í mínum huga. Það er það yfirvald sem með skipulagsvaldið fer í þessu landi. Ég kalla eftir aðkomu umhverfisráðuneytisins, ekki síst í því ljósi að ráðuneytið lagði fram á lokafundi samráðsfundanna minnisblað varðandi afstöðu sína. Þar kemur fram að ráðuneytið leggst gegn vegagerð sem það hafði áður heimilað með úrskurði og staðfestingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps ásamt því að vitna í skýrslur sem unnar hafa verið fyrir ráðuneytið sem og lög um verndun Breiðafjarðar. Við þær tilvitnanir er ekkert að athuga nema að þar er ekki öll sagan sögð.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að lög um náttúruvernd séu íslenskri þjóð mjög mikilvæg. En við verðum einnig að gæta okkar á því að finnist einhverjum okkar óvarlega hafa verið farið í fortíðinni þá megum við ekki fara í öfgarnar í hina áttina. Við verðum að finna leið sem er bæði í sátt við menn og náttúru.

Til að koma málinu í höfn verða allir, ég endurtek allir, að koma að borðinu og koma á heilsárssamgöngum til sunnanverðra Vestfjarða. Þarna er um að ræða einu þéttbýlisstaðina á Íslandi í dag þar sem þjóðvegurinn til og frá þeim hefur ekki enn verið lagður bundnu slitlagi. Ég vil undirstrika að þetta eru einu þéttbýlisstaðirnir sem svo háttar um og þetta er eini þjóðvegurinn til og frá okkur á þessu svæði, svo því sé vel haldið til haga. Tíminn er dýrmætur í þessu máli og því kalla ég eftir því hjá hæstv. innanríkisráðherra að eftir þrjú ár verði láglendisleið um Gufudalssveit á Vestfjarðavegi 60 tilbúin til útboðs. Því spyr ég: Mun hæstv. innanríkisráðherra beita sér fyrir því?