140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[15:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, að hún skuli vera sett á dagskrá, og þakka hv. þm. Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur fyrir að hafa hafið hana.

Ég saknaði þess þó að hæstv. ráðherra skyldi ekki svara mikilvægustu spurningu þingmannsins, þ.e. hvort hann sé tilbúinn til að segja að innan þriggja ára verði framkvæmdir hafnar í Gufudalssveitinni. Það er eitthvað sem þarf að fá svar við. Hægt er að eyða mörgum árum í viðbót í að kanna leiðir með öllu stafrófinu ef við viljum. Það þarf hins vegar að taka af skarið og það þarf að leggja láglendisveg eins og krafan er um. Ég er sorgmæddur yfir því að ráðherrann skuli taka svo skýrt af skarið, að leið B komi ekki til greina. Sýnt hefur verið fram á að sú leið er hagkvæm og ekki hljótast þau spjöll af henni sem menn vilja vera láta. Það er mjög sérkennilegt að halda þeim rökum á lofti, t.d. varðandi Teigsskóg, að hann sé svo merkilegur á sama tíma og landeigendur vilja reisa þar sumarhúsabyggð. Ég fær þetta ekki alveg til að ganga upp.

Ég vil skora á hæstv. ráðherra að beita sér af öllu afli fyrir því að þessu máli verði hraðað — ég veit hann getur beitt sér af þunga þegar hann vill. Það verður að fást niðurstaða í þetta þó að hún kalli á það að leið B verði ekki farin, það þarf að koma önnur láglendisleið. Dýrari, ókei, þá bara verður hún dýrari. En við erum ekki að fara að byggja upp fjallvegi á landsvæði þar sem við vitum að jafnvel ágætlega gerðir fjallvegir (Forseti hringir.) verða ófærir svo dögum skiptir. (Forseti hringir.) — Virðulegi forseti. Fyrir ekkert svo mörgum vikum var þessi vegur ófær vegna drullu.