140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[15:53]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Lagning þessa fyrirhugaða vegar fer nú að verða sú brösuglegasta í Íslandssögunni. Það var nú rakið hér áðan — sem búið er að rekja ansi oft í þessum sal — hversu mikið og langt leiðindadeilumál þetta hefur verið. Mér finnst mikilvægt að halda ekki áfram í þeim sama farvegi og reyna sem minnst að berja höfðinu við steininn. Ég hef líka þá tilfinningu að ef við ætlum að einblína á leið B í þessu verði það ávísun á áframhaldandi þrætur og deilur. Mér sýnist ákaflega margt benda til þess.

Þess vegna fagna ég því mjög þegar það upplegg frá samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða var kynnt þingmönnum Norðvesturkjördæmis um daginn að leggja ætti áherslu á að setja alla valkosti fyrir láglendisvegi á þessu svæði upp á borðið, kanna þá alla og reyna að vera tilbúin með láglendisleið þegar vegaframkvæmdum, sem hægt er að hefja núna, verður lokið, eftir tvö til þrjú ár. Þetta finnst mér vera upplegg og mér fannst ég greina það í máli hæstv. ráðherra áðan að hann tæki undir það að þetta væri skynsamlegt að gera. Ég er því frekar bjartsýnn núna loksins um að hægt verði að stíga einhver skref í því að leggja eða klára Vestfjarðaveg 60 ef við bara sammælumst um að þetta sé planið, að leggja alla kosti upp á borðið fyrir láglendisvegi með opnum huga og vera tilbúin með þann kost í útboð eftir tvö til þrjú ár. Mér finnst að ef við sammælumst um það sé mikill sigur unninn.

Svo vil ég bara segja að við ættum að læra af því hversu brösuglega hefur gengið að koma þessu í skýra farvegi eða leita sátta. (Forseti hringir.) Tíu ár, eins og hefur verið rakið hérna áðan, tók það að fá menn að sáttaborðinu. (Forseti hringir.) Að lokum vil ég segja að Vestfjarðavegur er ekki bara fyrir þá sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum, hann er líka fyrir okkur öll hin.