140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[15:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér Vestfjarðaveg 60 og ég þakka hv. þm. Eyrúnu Sigþórsdóttur fyrir þessa umræðu.

Ekki er hægt að segja annað en að lélegar samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum, þá sérstaklega Vestfjarðavegur 60, séu ein sorgarsaga frá upphafi til enda og stjórnvöldum liðinna ára til lítils sóma því að til fjölda ára hefur Fjórðungssamband Vestfjarða krafist framkvæmda á Vestfjarðavegi um Barðastrandasýslu en lítið hefur því miður miðað.

Það sagði við mig maður á dögunum að Fred Flintstone hefði ekki látið bjóða sér slíkar samgöngur og ég get alveg verið sammála honum, ef þið þekkið þann ágæta mann. Núverandi stjórnvöld hafa því ekki langan tíma til að hrinda af stað framkvæmdum sem koma þessum landshluta í alvöruvegasamband við aðra landshluta. Innanríkisráðherra hefur marglýst því yfir að hann telji þetta svæði eiga að njóta algjörs forgangs í vegaframkvæmdum og ég er honum sammála í því. Því ber að fagna að skýr forgangsröðun framkvæmda er nauðsynleg þegar ríkið hefur úr litlum fjármunum að spila.

Samráðshópur sem innanríkisráðherra skipaði í sumar hagsmunaaðilum að vestan var ætlað að fara yfir þessi mál að nýju og leita leiða fyrir framtíðarveg milli Þorskafjarðar og Skálaness um Gufudalssveit og Múlasveit í Austur-Barðastrandasýslu. Tillaga innanríkisráðherra í framhaldi af þeirri vinnu, um að farið yrði með vegstæði yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls, féll í grýttan jarðveg heimamanna og kannski kom það engum á óvart miðað við hvað þessi landshluti hefur dregist gífurlega aftur úr í samgöngumálum. Nútímakröfur um umferðaröryggi krefjast láglendisvegar eða jarðganga eða þverana.

Heimamenn hafa óskað eftir því við ráðherra að málið verði tekið upp að nýju og skoðað aftur á þeirri forsendu að um láglendisveg verði að ræða. Nú er því unnið að nýjum tillögum, að frumkvæði innanríkisráðherra, sem koma vonandi fram sem fyrst því. Málið er grafalvarlegt því að við megum engan tíma missa. (Forseti hringir.) Búseta, atvinna og framtíð þessa svæðis er í húfi og þingheimur allur ætti að geta sameinast um þessa forgangsröð í vegaframkvæmdum.