140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

Vestfjarðavegur 60.

[16:02]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur fyrir að taka þetta málefni upp og undirstrika þá kröfu að fundin verði lausn á vegasamgöngum fyrir Vestfirðina og þar með landsmenn alla. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi komið með yfirlýsingu um að kannað verði til þrautar hvort hægt verði að finna láglendisleið því að krafan snýst um það, krafa sem ég styð heils hugar.

Ég vil endilega að menn haldi áfram að skoða þá B-leið sem var til umræðu í upphafi einfaldlega vegna þess að það merkilega við það mál er að það hefur tvisvar sinnum farið fyrir Hæstarétt. Í hvorugt skiptið hefur verið fjallað efnislega um það sem deilan hefur staðið um, þ.e. Teigsskóginn í þeim tilfellum, sem er afar merkilegt.

Ég vil líka fagna yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að forgangsverkefnið í vegagerð sé Vestfjarðavegirnir, því að við erum að tala um býsna stór sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru orðin þau einu sem ekki hafa varanlegt slitlag og tengingar við önnur svæði. Þetta er, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, sorgarsaga og hefur tekið mjög langan tíma. Það hefur verið þannig að afstaða heimamanna hefur legið mjög skýrt fyrir. Sem betur fer er verið að gera ákveðna hluti sem munu laga þá leið. Við nefndum áðan það útboð sem fyrir liggur. Þess vegna höfum við ákveðinn tíma, þ.e. við þurfum að vera tilbúin með síðasta áfangann innan tveggja ára, tveggja, þriggja ára, þannig að þetta verði komið til framkvæmda í beinu framhaldi af þeim vegi sem núna verður farið í útboð, sem er frá Vattarfirði yfir í Kjálkafjörð.

Ég legg mikla áherslu á að menn nálgist verkefnið af varúð og reyni að finna lausn á því. Ég hef ekki stutt að fara í sérlög, frávik frá umhverfislögum, en ég tel engu að síður að menn eigi að skoða alla kosti vegna þess að þetta er líka svolítið prinsippmál hver hefur forgang í samfélaginu. Við höfum verið að tala um að fara leiðir (Forseti hringir.) í gegnum Teigsskóg, ekki í gegnum hann heldur ofan við hann, þannig að menn hafa verið að leita leiða til að verja þau svæði sem gerð hefur verið krafa um. Ég vona að við finnum lausn og (Forseti hringir.) lokum þessu máli í eitt skipti fyrir öll.