140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að segja örfá orð um þetta frumvarp. Það hefur orðið að samkomulagi að hætta hér eftir einhverjar mínútur þannig að þetta verður stutt ræða. Ég vil greiða fyrir því að málið komist til nefndar og ætla því að tala mun styttra en kannski er tilefni til, af því þetta er gríðarlega umfangsmikið mál sem hér er lagt fram og í því eru fjölmargar greinar. Ég vil þó taka fram að það þarf kannski ekki að fara mjög djúpt ofan í það við 1. umr., það hefur áður komið inn á þing, reyndar þrisvar sinnum held ég, og búið að vinna í því, senda það til umsagnar og allir hagsmunaaðilar hafa komið að því með umsögnum o.s.frv. Þetta mál er því að verða gamall kunningi.

Mig langar að tipla á fjórum greinum ef ég næ því á þessum mínútum. Ég fagna því að hér eru hv. þingmenn úr velferðarnefnd og þeir geta þá tekið það til sín það sem ég hef að segja um þessar greinar.

Í fyrsta lagi vil ég fagna því að 3. gr. sem fjallar um löggildingar hefur breyst í meðförum málsins frá því að það kom fyrst fram. Þá átti þingið að löggilda nýjar heilbrigðisstéttir. Ég tel að það hafi verið mjög vanhugsað. Ég vil fagna því að það verður enn þá í höndum hæstv. ráðherra. Ég tel miklu eðlilegra að hafa það þannig en að setja það í hendur þingsins. Ég vil fagna því sérstaklega.

Ég vil líka fagna því að 11. gr. er inni. Um þá grein var umræða í velferðarnefnd, eða heilbrigðisnefnd eins og hún hét þá, en í henni kemur m.a. fram að læknanemar sem hafa lokið 4. árs námi í læknisfræði geti fengið tímabundið starfsleyfi til að sinna tilgreindum læknisstörfum ef landlæknir telur nauðsyn á. Það hefur landlæknir talið hingað til. Umræða varð um þetta ákvæði og nokkrir hv. landsbyggðarþingmenn komu upp og sögðu: Þetta er ekki gott. Það er mjög slæmt ef læknanemar eiga að sinna fólki á landsbyggðinni. Ég vil segja af því tilefni að ef þessi heimild er ekki inni þá tel ég að læknislaust verði á sumum stöðum á sumrin þegar fastráðnir læknar eru í sumarfríi. Þetta er nauðsynlegt ákvæði, annars er ekki hægt að manna margar stöður að mínu mati. Ég styð því að það sé haft inni áfram. Að sjálfsögðu vinna nemarnir sem hafa lokið þetta miklu námi í læknisfræði á ábyrgð annarra lækna sem eru ekki langt frá. Það er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði inni og ég fagna því að svo er.

Ég ætlaði að tala aðeins um 22. gr. en sleppi því. Hún fjallar um skyldu heilbrigðisstarfsfólks til að veita hjálp. Það hefur bara gilt um lækna en núna á það að gilda um alla heilbrigðisstarfsmenn, þeim ber skylda til að veita aðstoð, fyrstu hjálp og slíkt ef þeir eru staddir þar sem slys verða o.s.frv. Ég fagna því líka.

Ég ætla að lokum að segja frá einni grein sem ég er ekki alveg sátt við. Það er 26. gr. um aldursmörk. Þar segir að heilbrigðisstarfsmanni sé óheimilt að reka eigin starfsstofu eftir að hann nær 70 ára aldri. Landlækni er þó heimilt að fenginni umsókn viðkomandi að framlengja leyfið til tveggja ára í senn, þó aldrei oftar en þrisvar. Þetta þýðir að ef viðkomandi læknir, hjúkrunarfræðingur eða hver sem það nú er er orðinn 70 ára, má hann fá framlengingu þrisvar sinnum til tveggja ára hjá landlækni, þ.e. vinna til 76 árs aldurs, punktur og basta, og þá á að loka stofunni eða starfsemi viðkomandi. Ég hef miklar efasemdir um þetta ákvæði. Í dag er hægt að vinna til 75 ára aldurs, eftir það má fá árlega framlengingu óendanlega ef landlæknir telur það rétt. Með nýja ákvæðinu er algjörlega tekið fyrir að heilbrigðisstarfsmaður geti rekið starfsstofu lengur en til 76 ára aldurs. Ég tel að þetta sé ekki æskilegt ákvæði. Ég ætla að taka dæmi, bara um lækna þó að örugglega sé hægt að taka önnur dæmi. Ég tel að starfandi séu í landinu læknar sem geti rekið starfsstofur eftir 76 ára aldur. Ég ætla að nefna eitt dæmi; geðlækna. Við getum átt mjög góða geðlækna sem geta án vafa starfað á stofum eftir 76 ára aldur, geta jafnvel verið betri eftir því sem þeir eru eldri liggur við, af því reynslan skiptir þar mjög miklu. Ég ætla því að biðja hv. velferðarnefnd að skoða sérstaklega hvort ekki sé rétt að hafa þetta í höndum landlæknis áfram en setja ekki þetta snögga skilyrði um að eftir 76 ára aldur eigi fortakslaust að loka fyrir starfsemina þó að viðkomandi geti alveg unnið lengur. Þjóðin er að eldast. Það á við um heilbrigðisstéttir líka og þær geta unnið sumar hverjar lengi.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, virðulegur forseti, af því að það var samkomulag um að hætta núna, en ég styð þetta mál í heild. Ég held að það sé mikið framfaramál og ég vona að okkur takist að klára það á þessu þingi því ekki tókst okkur það síðast.