140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

ESB-umsókn og ástandið í Suður-Evrópu.

[10:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra virðist hafa mikla spádómsgáfu og meiri þekkingu á þróun efnahagsmála en nokkur hagfræðingur í Evrópusambandinu eða nokkur þeirra sem hefur verið að tjá sig um þessi mál í erlendum fjölmiðlum. [Kliður í þingsal.] Ég held reyndar að það væri gagnlegt fyrir hæstv. ráðherra að kynna sér umfjöllun erlendra fjölmiðla og ef hann er enn sömu skoðunar eftir að hafa lesið um stöðuna í Evrópusambandinu og það sem menn segja um áhrif evrunnar á þá stöðu þá eigi hann að bjóða fram aðstoð sína, bjóða Evrópusambandinu aðstoð við að leysa þetta mál og ná fram þessari niðurstöðu sem hann segir að sé óhjákvæmileg, einn manna, að evran verði fljótlega sterkari en nokkru sinni fyrr.

Hvað varðar lægri vexti minni ég hæstv. ráðherra á að ítalska ríkið þarf nú að borga yfir 7% vexti í evrum svoleiðis að sú kenning að einn gjaldmiðill tryggi sömu vexti er löngu liðin. En spurningin hlýtur að vera, miðað við þessa miklu spádómsgáfu hæstv. ráðherra: Hvort vill hæstv. ráðherra að Ísland gangi í Evrópusamband Frakklands og Þýskalands eða Evrópusamband Bretlands, Danmerkur og fleiri ríkja? (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra búist við að tveggja ríkja lausnin verði ofan á í Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Í hvort Evrópuríkið vill hæstv. ráðherra ganga?