140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

ESB-umsókn og ástandið í Suður-Evrópu.

[10:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Eins og jafnan þegar ég fæ svona fræðilegar spurningar vísa ég til orða fyrrum forsætisráðherra Breta, Margrétar Thatcher, sem sagði, með leyfi forseta: „We don´t answer hypothetical questions.“ Við skulum bara sjá hvernig þetta þróast. Við skulum sjá hvort hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér eða hvort það sé hugsanlegt að honum, þá væntanlega í fyrsta skipti að eigin mati, bregðist spádómsgáfan. Hv. þingmaður hefur ekki alltaf haft rétt fyrir sér þegar hann hefur verið að spá fyrir um efnahagslega framvindu. (Gripið fram í.)

Ég get svo fullvissað hv. þingmann um það að utanríkisráðherra fer helst ekki að sofa á kvöldin öðruvísi en að eyða svona klukkutíma í það að lesa um stöðu evrunnar. Það skiptir mjög miklu máli (Gripið fram í.) í þessum veltingi sem núna er.

Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort ég eigi að bjóða fram starfskrafta mína gagnvart þeim löndum sem í erfiðleikum eiga núna. Ég held að það sé ekki ráðlegt. Hins vegar hef ég manninn sem ég gæti boðið fram, það er hæstv. fjármálaráðherra sem hefur staðið sig afburðavel við að stýra Íslandi í gegnum efnahagslega kreppu [Kliður í þingsal.] með þeim hætti að vekur (Forseti hringir.) eftirtekt alls staðar. (Gripið fram í.) Ef það kæmi fram beiðni frá Evrópusambandinu um að fá hann lánaðan mundi ég ekki taka henni illa. [Hlátur í þingsal.]