140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

uppbygging í orkufrekum iðnaði.

[11:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísar hér í framkvæmdaáætlun og eina af sviðsmyndunum sem lögð er fram í svokallaðri GAMMA-skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun, eina sviðsmynd af fjórum. Í þeirri áætlun kemur mjög skýrt fram að byggt sé á þeim forsendum sem koma fram í tillögu að rammaáætlun sem nú er í opnu umsagnarferli, þannig að hugmyndir Landsvirkjunar snúa að því að vinna með rammaáætlun og það eigum við þingmenn að gera líka.

Hv. þingmanni er tíðrætt um ályktanir þeirra sem eru andsnúnir virkjunum í neðri Þjórsá en þá skulum við ekki gleyma því að inn á þing hafa líka komið tillögur í hina áttina, þ.e. að Þjórsá verði tekin út úr rammaáætlun og virkjuð. Þetta er því aldeilis á báða bóga, virðulegi forseti.

Sú sem hér stendur er fyrst og fremst talsmaður rammaáætlunar. Ég vil að við ljúkum afgreiðslu rammaáætlunar með faglegum hætti í vetur þannig að hægt sé að gera áætlanir um hvar verði virkjað og hvar verði verndað til lengri framtíðar litið. Hættum að taka einstaka kosti út með þeim hætti sem hér hefur verið gert í umræðunni og skoðum loksins það verkfæri sem við höfum með rammaáætlun þar sem við höfum faglegar forsendur til að meta kost á móti kosti og höfum heildarsýn yfir 69 mögulegar virkjunarframkvæmdir.

Virðulegi forseti. Þetta er lykilatriði og það er ekki hægt að koma hér ítrekað upp og segja að Vinstri grænir eða einhverjir sem álykti gegn því að virkja í neðri Þjórsá séu að rjúfa frið um rammaáætlun. Það er líka gert á hinn veginn. Við skulum því fyrst og fremst horfa á það að skapa og nýta okkur þann sáttagrundvöll sem felst í rammaáætlun í vetur og afgreiða hana með sæmd frá hinu háa Alþingi á vordögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)