140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar og í því skyni leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir. Auk þess óskaði fjárlaganefnd eftir áliti frá Ríkisendurskoðun um frumvarpið.

Nefndin hefur enn fremur farið yfir þau erindi sem hafa borist nefndinni. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema tæpum 2,6 milljörðum kr. til hækkunar gjalda og rúmlega 2 milljörðum kr. til lækkunar tekna á rekstrargrunni. Í heild munu því útgjöld ríkissjóðs hækka um 16,8 milljarða í fjárauka en tekjurnar aukast á móti um 8,2 milljarða.

Nokkur mál er varða kjarasamninga, velferðar- og innanríkismál bíða 3. umr. um frumvarp til fjáraukalaga.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur framkvæmd fjárlaga verið ámælisverð um langan tíma en eins og stofnunin bendir á „er á ábyrgð Alþingis, ráðuneyta og forstöðumanna stofnana að sjá til þess að fjárlög séu virt“. Ríkisendurskoðun bendir á að á tímabilinu 2003–2007 námu fjáraukalög að meðaltali um 6% af samþykktum fjárlögum hvers árs. Árið 2008 var þetta hlutfall tæplega 8% enda var þá brugðist við ýmsum kostnaði vegna falls bankanna þá um haustið. Í fjáraukalögum fyrir árið 2009 voru útgjöld hækkuð um rúmlega 2% frá fjárlögum, en árið 2010 voru þau lækkuð lítillega. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir hækkun útgjalda sem nemur 2,8% frá fjárlögum ársins 2011. Að mati Ríkisendurskoðunar er agi meiri nú en áður þegar kemur að því að samþykkja ný útgjöld í fjáraukalögum en við eigum nokkuð í land þegar horft er til fjárlagagerðar nágrannaríkja þar sem aukning samkvæmt fjáraukalögunum er um 1%.

Frú forseti. Ég mun nú fjalla um breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga árið 2011. Fyrst vil ég ræða um breytingartillögu varðandi tekjur og ég fer, frú forseti, yfir mikilvægustu og stærstu breytingarnar hvað það varðar.

Tekjurnar munu lækka um 4 milljarða vegna skatts á fjármagnstekjur lögaðila en samkvæmt frumvarpinu áttu þær að lækka um 5 milljarða en það dregur úr þeirri lækkun í breytingartillögunum. Á móti koma tekjur vegna tekjuskatts lögaðila sem er aukning upp á um 2,3 milljarða og eins vegna vörugjalda af innfluttum ökutækjum upp á 400 milljónir. Þetta eru skattstofnar sem færa okkur heim sanninn um að umsvif í hagkerfinu eru að aukast og það er ánægjulegt.

Þá er 700 millj. kr. tekjuaukning af kolefnisgjaldi. Í heimsókn fulltrúa fjármálaráðuneytisins kom fram að nokkur óvissa ríkir með álagningu út af þeim sköttum enda er um nýja skatta að ræða og tekur stundum tíma að átta sig á með hvaða hætti þeir innheimtast í ríkissjóð, en það er sem sagt 700 millj. kr. aukning í tekjum vegna þessa skattstofns.

Þá vil ég að lokum nefna varðandi tekjuhlutann, frú forseti, liði sem varða samkomulag ríkisvaldsins við fjármálastofnanir og lífeyrissjóði vegna skuldavanda heimilanna sem gerður var í árslok 2010. Það hefur gengið mjög illa að innheimta þá 6 milljarða og nú er enn óleyst um 2,1 milljarður af þeim 6 milljörðum auk þess sem eftir á að finna leiðir til að fá þá 1,4 milljarða kr. sem lífeyrissjóðirnir eiga að greiða af þessu gjaldi. Mikilvægt er að hafa í huga að þarna eru fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir að svíkja samkomulag þar sem þeir áttu að taka þátt í því með ríkissjóði að bæta heimilum mikinn vaxtakostnað sem m.a. má rekja til óábyrgra og óheftra lánveitinga til heimila í aðdraganda hrunsins. Þetta er eitthvað sem fjárlaganefnd mun veita sérstaka athygli vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2012.

Frú forseti. Ég mun nú fjalla um breytingartillögur meiri hlutans vegna heimildarákvæða í fjáraukalagafrumvarpinu. Meiri hlutinn gerir tillögur um breytingar á 3. gr. frumvarpsins sem varðar þann hluta lánveitingar ríkisins til Vaðlaheiðarganga hf., til fjármögnunar gangaframkvæmda, sem áætlað er að greiðist félaginu á þessu ári. Þá eru gerðar breytingar á 4. gr., heimildargrein, sem einnig varða Vaðlaheiðargöng.

Vaðlaheiðargöng eru framkvæmd utan vegáætlunar og því mikilvægt að sátt sé milli Alþingis og sveitarfélaga á svæðinu um framkvæmdina. Þó að göngin séu mikilvæg samgöngubót er ljóst að aðrar framkvæmdir eru taldar brýnni á vegáætlun. Því er mikilvægt að vandað sé til verka og áætlanir og samningar séu raunhæfir og í samræmi við markmið. Að öðrum kosti er hætta á deilum, kjördæmaríg og ófyrirséðum útgjöldum úr ríkissjóði.

Framkvæmdin á sér stoð í lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, nr. 97/2010. Forsendan fyrir framkvæmdum samkvæmt þeim lögum er sú að framkvæmdin beri sig sjálf og veggjöld greiði kostnaðinn. Alþingi veitir nú fjármálaráðherra heimild til að veita lán til verksins en almenn skilyrði eru að sjálfsögðu þau að verkáætlun uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögum. Það þarf með öðrum orðum að vera tryggt að verkið beri sig og valdi ekki kostnaði fyrir ríkissjóð. Ráðherra ber skylda til að ganga úr skugga um að svo sé.

Eftirlitshlutverk Alþingis felst í því að ganga úr skugga um að undirbúningur og framkvæmd verksins sé eins og best verður á kosið og í samræmi við þær forsendur sem lagt var upp með. Þetta er Alþingi að gera með eftirfarandi hætti: Umhverfis- og samgöngunefnd hefur þegar leitað eftir því að Ríkisendurskoðun yfirfari þær áætlanir sem gerðar hafa verið vegna verkefnisins og ber að benda á að samkvæmt nefndaráliti með áðurnefndum lögum nr. 97/2010 er ljóst að kynna þarf umhverfis- og samgöngunefnd þá samninga sem gera á.

Með leyfi forseta, vil ég vitna í það nefndarálit samgöngunefndar, þ.e. fyrrverandi hv. samgöngunefndar, sem er nú hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

„Nefndin áréttar að hún telur þörf á því að þeir samningar sem gerðir verða um framkvæmdir á grundvelli frumvarpsins verði kynntir samgöngunefnd áður en stofnað er til skuldbindingar samkvæmt þeim.“

Í nefndaráliti meiri hlutans með fjáraukalögum er það skilyrði sett að fjárlaganefnd séu kynntir samningar áður en stofnað er til skuldbindingarinnar og fjárlaganefnd geti kynnt sér þá með fullnægjandi hætti.

Meiri hlutinn gerir fleiri breytingartillögur við 4. gr. frumvarps til fjáraukalaga. Ég vil nefna þar tvær veigamiklar. Það er annars vegar breyting á lið 7.19 í frumvarpinu, um að selja eignarhlut ríkisins í Byr hf., sem stofnaður var á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008 og semja í stað víkjandi láns, eins og fjallað er um í fjáraukalagafrumvarpinu, um allt að 5 milljarða kr. mögulega lausafjárfyrirgreiðslu við kaupanda félagsins.

Efnislega hefur verið bætt við liðinn, og eins og hann yrði með samþykkt þessarar breytingar er heimild til þess að semja um lausafjárfyrirgreiðslu við kaupanda félagsins sem er Íslandsbanki. Í samþykktu kauptilboði er gert ráð fyrir að ríkissjóður veiti kaupandanum í þessu skyni víkjandi lán að fjárhæð 5 milljarða kr. en með breytingunni er lagt til að um hefðbundna lánveitingu til bankans verði að ræða. Ástæður lánveitingarinnar felast í kröfum eftirlitsstofnana um að lausafjárhlutfall bankans lækki ekki óhæfilega við yfirtöku hans á þeim skuldbindingum sem í kaupunum felast. Sé það hins vegar fast í hendi að bankinn hafi heimild til slíkrar lántöku skoðast umrædd fjárhæð sem hluti af lausafé bankans jafnvel þó að hún verði ekki nýtt.

Þá er heimildarákvæði sem kemur nýtt inn, 7.23, um að veita Hörpu skammtímalán þar til samið hafi verið um langtímafjármögnun verkefnisins. Um skeið hefur staðið yfir undirbúningur vegna skuldabréfaútboðs til endurfjármögnunar á sambankaláni Hörpu. Þau kjör sem bjóðast á markaðnum um þessar mundir eru hins vegar þess eðlis að talið hefur verið rétt að bíða eins og kostur er með endurfjármögnunina með von um að kjör fari batnandi. Kjör á núverandi sambankaláni Hörpu hafa í sjálfu sér ekki kallað á endurfjármögnun enda eru þau talsvert hagstæð um þessar mundir. Vandamálið hefur hins vegar verið að sambankalánið hefur ekki nægt til að fjármagna verkefnið að fullu. Til að brúa það bil er lagt til að heimilt verði að veita Hörpu skammtímalán. Slíkt lán gerir Hörpu kleift að hinkra um tíma með heildarfjármögnunina með von um að hagstæðari fjármögnun bjóðist á næstu mánuðum. Mjög mikilvægt er að áliti eigenda Hörpu að hún njóti eins hagstæðrar langtímafjármögnunar og kostur er vegna rekstrar verkefnisins til framtíðar. Gert er ráð fyrir að hlutur ríkisins í slíku skammtímaláni verði um 400 millj. kr.

Frú forseti. Ég mun að lokum fara yfir þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir við útgjöld og fara yfir helstu atriði sem rædd voru í nefndinni.

Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að rúmlega 38 millj. kr. fari til þess að greiða fasteignagjöld sem Reitum, eigendum Borga á Akureyri, láðist að innheimta frá árinu 2007 og eru nú rukkuð af ríkisstofnunum í heilu lagi. Þau mistök í innheimtu þessa fyrirtækis kosta okkur nú á yfirstandandi fjárlagaári rúmar 38 milljónir.

Þá eru útgjöld upp á 205 milljónir, annars vegar 135 millj. kr. kostnaður vegna Herjólfs af því að skipið hefur þurft að hafa stærri áhöfn og nýta meiri olíu þar sem ekki hefur verið hægt að sigla í Landeyjahöfn eins og allir vita, og hins vegar útgjöld upp á 70 milljónir vegna dýpkunar Landeyjahafnar.

Þá eru einnig útgjöld sem koma til vegna heimildarákvæða og þar er lagt til að veitt verði 1.230 millj. kr. vegna fyrirhugaðra kaupa ríkisins á landi og jarðhitaauðlind í landi Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi. Með kaupunum á Kalmanstjörn og Junkaragerði verður jarðhitaauðlind sem nýtt er af virkjuninni öll í eign ríkisins sem hefur mikið hagræði í för með sér enda munu nýtingargjöld þá öll renna til ríkisins án flókinnar skiptingar milli eigenda auðlindarinnar. Eigandi landsins og auðlindarinnar er nú sveitarfélagið Reykjanesbær. Kaupverðið greiðist að hluta með skuldajöfnun við Reykjanesbæ upp á tæplega 900 millj. kr. en það er það sem Reykjanesbær skuldar innheimtumanni ríkissjóðs vegna fjármagnstekjuskatts, og þarna er leið ríkisins til að fá upp í þær skuldir.

Þá eru umtalsverð aukin útgjöld vegna vaxtabóta. Í frumvarpi til fjáraukalaga er 500 millj. kr. útgjaldaaukning og hér bætast við 850 milljónir, annars vegar vegna hefðbundinna vaxtabóta, 390 milljónir, og hins vegar 460 milljónir sem var vanáætlun á sérstökum vaxtaniðurgreiðslum. Þetta er enn eitt dæmið um útgjaldakostnað ríkissjóðs vegna þeirrar séreignarstefnu sem hefur verið rekin hér áratugum saman og vegna óábyrgrar lánastarfsemi fjármálastofnana til húsnæðiskaupa.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Þar er lögð til breyting þannig að auknar verði heimildir upp á 120 millj. kr. Það þýðir að á þessu ári verða heimildir til 317 millj. kr. greiðslu vegna endurgreiðslu á kostnaði til kvikmyndagerðar á Íslandi. Samkvæmt yfirliti frá iðnaðarráðuneytinu er ljóst að sú skuldbinding verður alls um 700 millj. kr. á árinu en í tillögunni er gert ráð fyrir að greiðslur vegna þeirra viðbótarskuldbindinga fari fram á næsta ári. Við ræddum þetta mjög mikið í nefndinni, enda eru lögin sem þær greiðslur byggja á — þau opna í raun og veru á útgreiðslur úr ríkissjóði án þess að heimildir séu fyrir þeim fyrr en eftir á. Þetta er eitthvað sem nefndin mun fjalla frekar um í framhaldinu, en það er líka mikilvægt að muna að 700 milljónir eru endurgreiddar, sem þýðir að vegna framleiðslu á þeim kvikmyndum sem frumsýndar hafa verið á þessu ári á Íslandi hefur verið 3,5 milljarða velta sem er auðvitað umtalsvert og skiptir sköpum, ekki síst á tímum sem þessum.

Þá er hér í lokin einn gleðilegur liður sem dregur úr vaxtagjöldum ríkissjóðs upp á rúmlega hálfan milljarð og það skýrist aðallega af því að vaxtakjör á ríkisbréfum hafa verið ívið betri en reiknað var með áður.

Frú forseti. Undir nefndarálit meiri hlutans rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson, Oddný Harðardóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Við leggjum til að breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga 2011 verði samþykktar.