140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Mér er alveg fullljóst að málið er umdeilt, við sáum það birtast ágætlega í störfum nefndarinnar í gær, það tafði fyrir störfum hennar og þingstörfunum einnig. En spurning mín er tiltölulega einföld: Mun þessi bókun, eins og hún er sett fram, koma í veg fyrir að hægt sé að vinna áfram að framgangi þessa máls af hálfu þess hlutafélags sem heimildin tekur til?

Í annan stað vildi ég spyrja hv. þingmann hvaða eðlismun hún telji í raun vera á þeirri fjárveitingu eða afgreiðslu sem hér er lögð til vegna Vaðlaheiðarganga hf. og fjárveitingunni sem lögð er til byggingarfélagsins vegna Hörpu, þ.e. til Austurhafnar. Hver er eðlismunurinn á þeim fjárhagslegu fyrirgreiðslum sem um ræðir í þessum tveimur tilvikum?